Hvar fæst binding?

Almennt

Skógræktin selur ekki Skógarkolefniseiningar. Skógræktin ber ábyrgð á umsjón með kröfusettinu og tryggir að verkefni séu skráð í Loftslagsskrá Íslands, staðfest og sannprófuð af óháðum aðila. Í Loftslagsskrá Íslands er hægt að sjá hvaða verkefni eru með kolefniseiningar til kaups. Athugið að tilgangur sumra fyrirtækja og/eða landeigenda með verkefnum sínum er að búa til kolefniseiningar til eigin nota og því eru kolefniseiningar ekki til sölu úr verkefnum þeirra (sjá nánar í kaflanum Ræktaðu eigin kolefniseiningar).

Verkefni með fullgildar sannprófaðar Skógarkolefniseiningar til sölu

Eftir 5 ár geta verkefni átt takmarkaðan fjölda fullgildra sannprófaðra kolefniseininga til sölu til viðbótar við kolefniseiningar í bið sem áætlað er að verði fullgildar einingar í fyllingu tímans. Fullgildar einingar er leyfilegt að nota á móti losun á viðkomandi bókhaldsári. Hafa verður í huga að fullgildar Skógarkolefniseiningar verða í fyrsta lagi fáanlegar til kaups þegar fyrsta verkefnið samkvæmt Skógarkolefni hefur verið sannprófað árið 2028. Ein fullgild Skógarkolefniseining jafngildir einu tonni af koltvísýringi sem hefur bundist í nýjum skógi.

Verkefni með einingar í bið til sölu

Verkefni geta selt einingar í bið sem ætlað er að verði nothæfar á móti losun í framtíðinni. Meira framboð er af einingum í bið en fullgildum einingum en hafa þarf í huga að þetta eru „fyrir fram“ kaup á kolefnisbindingu og bindingin þar með ekki sannprófuð. Kannið hvaða ár bindingin að baki umræddum einingum á að raungerast (þ.e. hvenær einingarnar verði sannprófaðar og öðlist fullgildingu). Munið að ekki er hægt að nota einingar í bið til að bæta fyrir losun strax heldur eingöngu til að skipuleggja mótvægisaðgerðir fram í tímann. 1 eining í bið = 1 tonn af koltvísýringsígildi sem verður bundið í framtíðinni.