Grunnatriðin

Skógarkolefni er valkvætt kröfusett sem stuðlar að samræmi í kolefnisverkefnum með nýskógrækt og gefur viðskiptavinum skýran og gagnsæjan valkost. Kröfusettið sem nú er í gildi fyrir ný verkefni er Skógarkolefni 2.0, sjá flipann Kröfur og leiðsögn.

Jafnvel þótt þýðingarmesta verkefnið sé að draga úr kolefnislosun getur nýskógrækt einnig gegnt mikilvægu hlutverki með því að sjúga koltvísýring úr lofthjúpnum. Æ fleiri opna nú augu sín fyrir þeim eiginleika skóganna að geta fjarlægt CO2 úr andrúmsloftinu, auk alls annars sem skógarnir geta gert fyrir samfélag og fjölbreytta náttúru. Vaxandi vilji er hjá bæði einstaklingum og í atvinnulífinu til að leggja sitt af mörkum með nýskógrækt svo binda megi kolefni á móti því sem samfélagið losar. En áður en fjárfest er í slíkum verkefnum vill fólk geta fullvissað sig um að viðkomandi aðferð muni í raun leiða til þess kolefnisávinnings sem haldið er fram.

Skógarkolefni tryggir að útgjöld viðskiptavina leiði til þess kolefnisávinnings sem raunhæft er að ná með nýskógræktarverkefnum.

Staðfesting og sannprófun skv. Skógarkolefni þýðir að Skógarkolefnisverkefni ...

  • lúta ábyrgri stjórn með sjálfbærni að leiðarljósi í samræmi við lög og áætlanir landsins
  • fá áreiðanlegt mat á því magni kolefnis sem binst eða geymist varanlega með nýskógræktinni
  • verða að vera opinberlega skráð og sannprófuð af óháðum aðila
  • uppfylla skilyrði um gagnsæi og góða starfshætti til að tryggja að raunverulegur ávinningur kolefnis skili sér

Til að uppfylla kröfur Skógarkolefnis verða aðstandendur verkefna að ...

  • skrá verkefni sín og tilgreina nákvæma staðsetningu þeirra og langtímamarkmið
  • fylgja löggjöf og stefnu um skógrækt til að tryggja að skógræktin sé sjálfbær og ábyrg
  • gera langtímaáætlun um ræktun, umhirðu og stjórn skóganna
  • tryggja að kolefnisbindingin sé mæld með viðurkenndum aðferðum
  • sýna fram á að kolefnisávinningur verkefnisins sé viðbót við það sem hefði orðið á viðkomandi svæði ef ekkert hefði verið gert
  • viðhalda sannprófun meðan á verkefninu stendur

Verkefni sem uppfylla allar þessar kröfur eiga tilkall til þess að geta notað gæðastimpil Skógarkolefnis.

Skógarkolefni veitir hlutaðeigandi tryggingu fyrir því ...

  • að á bak við fjárfestingu í bundnu kolefni sé ábyrgt kerfi og ávinningurinn verði áþreifanlegur
  • að um verkefnin gildi viðurkenndar kröfur og góðar starfsvenjur sem unnið er eftir og að vottunin nýtist til að styrkja viðkomandi í markaðsstarfi sínu gagnvart nýjum viðskiptavinum
  • að sérfræðingar í skógrækt hafi unnið skýrar áætlanir um ræktun og meðhöndlun skógarins

Sala eða notkun kolefniseininga

Aðeins er hægt að nota kolefniseiningar einu sinni. Þær má nýta til að vega upp á móti eigin losun eða selja öðrum, sem þar með getur nýtt þær á móti losun sinni.

Valkvæðir kolefnismarkaðir

Röskun loftslagsins er vandi sem steðjar að allri starfsemi, stjórnsýslu og fólki á jörðinni. Því er allsherjarþátttaka nauðsynleg í umbreytingunni yfir í kolefnishlutlaust hagkerfi. Stjórnvöld landa taka þátt í alþjóðlegu samstarfi þar sem mótuð er stefna um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og fjarlægja úr lofthjúpnum kolefni sem losnað hefur af mannavöldum. Heima fyrir setja stjórnvöld stefnu, löggjöf og áætlanir um þessi efni til að ýta á eftir breytingunum. Þetta er meðal annars gert með skattbreytingum, svo sem með því að lækka skatta á loftslagsvæn verkefni og lausnir. Sums staðar tíðkast enn niðurgreiðslur á efnum og starfsemi sem hefur mikla kolefnislosun í för með sér. Sömuleiðis er hagkerfi margra landa enn vanþróað. Þar sem þannig háttar til er mikilvægt að aðstoða og flýta fyrir því að loftslagsvænar lausnir séu innleiddar og teknar upp. Slíkar lausnir geta hins vegar reynst óárennilegar til fjárfestinga eða gefið minni arð en sú mengandi starfsemi eða efni sem ætlunin er að leysa af hólmi. Þar koma kolefnismarkaðirnir til skjalanna og ýta undir grænu lausnirnar.

Svokallaður valkvæður kolefnismarkaður, sem gjarnan er talað um sem „valkvæða markaðinn“ með greini, er markaður sem ekki er skyldubundinn, ólíkt viðskiptakerfi ESB, þar sem aðilum er skylt að standa skil á kolefniseiningum á móti losun. Eins og felst í orðinu „valkvæður“ er engin slík skylda á valkvæða markaðnum, hvað svo sem framtíðin kann að bera í skauti sér. Valkvæður kolefnismarkaður örvar smærri fyrirtæki og einkaaðila til þátttöku í því að draga úr losun og stuðla að bindingu kolefnis. Valkvæði markaðurinn nær til stórra og smárra verkefna. Þessum valkvæða markaði má ekki blanda saman við skyldubundin kerfi eins og t.d. viðskiptakerfi ESB. Þetta þýðir m.a. að ekki er hægt að gefa út kolefniseiningar á valkvæðum markaði fyrir starfsemi sem fellur undir viðskiptakerfi ESB og sambærileg kerfi.

En hver er hvatinn?

Helsti hvati valkvæða markaðarins til loftslagsaðgerða af hálfu fyrirtækja er sá, að fyrirtækin þurfa að leggja út fyrir kostnaði við kolefniseiningar á móti losun sinni. Eftir því sem þau draga úr losuninni minnka þessi útgjöld. Fyrirtæki sem nær að hætta allri losun þarf ekki að borga neitt fyrir kolefniseiningar. Það hlýtur að vera endanlegt markmið hvers vel rekins fyrirtækis og fer því vel saman við almenn loftslagsmarkmið. Vaxandi krafa viðskiptavina og samfélagsins alls um aukna ábyrgð í loftslagsmálum og á endanum kolefnishlutleysi ýtir á eftir fyrirtækjum eða öðrum lögaðilum að taka þátt í valkvæða markaðnum.