Hvernig á að kaupa?

Á þessari síðu

 1. Hvernig á að kaupa Skógarkolefniseiningar og sýsla með þær?
 2. Áður en kolefniseiningar eru keyptar
 3. Val milli eininga í bið og fullgildra eininga
 4. Að sýsla með einingar sínar

1. Hvernig á að kaupa Skógarkolefniseiningar og sýsla með þær?

Félög og fyrirtæki geta vegið upp á móti losun sinni með því að nota sannprófaðar, fullgildar kolefniseiningar úr Skógarkolefnisverkefnum. Hægt er að kaupa einingar af eigendum skráðra Skógarkolefnisverkefna og hér er útskýrt hvernig kaupin fara fram. Einingar eru hýstar í Loftslagsskrá Íslands, ICR.

2. Áður en kolefniseiningar eru keyptar

Verkefni undir Skógarkolefni eru einungis ein fjölmargra mögulegra aðgerða sem gagnast geta í baráttunni gegn áhrifum loftslagsbreytinga. Áður en fyrirtæki og stofnanir huga að því að stofna til verkefnis samkvæmt reglum Skógarkolefnis er mikilvægt að skoða eftirfarandi vel:

 1. Mat: Þekkja og mæla kolefnisspor sitt (umfang 1, umfang 2 og þar sem mögulegt er losun á umfangi 3), vísað er til tækniforskriftarinnar ÍST TS 92:2022 Kolefnisjöfnun: Kröfur með leiðbeiningum (Carbon offsetting: Specification with guidance) sem er að finna á vef Staðlaráðs Íslands
 2. Markmið byggð á vísindalegum grunni: Setja sér mælanleg markmið um að draga úr losun í samræmi við markmið og skuldbindingar Íslands um að ná kolefnishlutleysi fyrir 2040. Sjá: Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum
 3. Samdráttur losunar: Grípa til aðgerða til að draga úr losun á umfangi 1, umfangi 2 og ef unnt er, einnig losun á umfangi 3, í samræmi við áðurnefnd markmið

Frekari leiðbeiningar fyrir lögaðila sem hafa hug á að framleiða eða kaupa Skógarkolefniseiningar má finna á vef Voluntary Carbon Markets Integrity Initiative.

3. Val milli eininga í bið og fullgildra eininga

Þegar gerð hefur verið áætlun um að draga úr losun er rétt að kynna sér muninn á einingum í bið og fullgildum einingum, sjá kaflann Einingar í bið og fullgildar kolefniseiningar. Vert er að hafa í huga að einingar í bið eru fyrirframkaup og ekki fullgildar. Í kaflanum Hvar fæst binding? eru upplýsingar um hvernig finna má eigendur verkefna eða aðila sem versla með einingar, hvort sem það eru einingar í bið eða fullgildar einingar.

4. Að sýsla með einingar sínar

Stofna reikning í Loftslagsskrá

Í Loftslagsskrá er hægt að stofna reikning gegn gjaldi til að halda utan um kolefniseiningar sínar. Á reikninginn er hægt að leggja bæði einingar í bið og fullgildar einingar. Með reikningi í Loftslagsskrá er auðvelt að fylgjast með eign sinni á kolefniseiningum og sýsla með þær, svo sem að nota einingarnar á móti losun og þar með afskrá þær þegar tími er kominn til þess. Mikið hagræði er að því að eiga reikning í Loftslagsskrá, ekki síst ef eignin er stór og einingarnar margar.

Einingar skráðar á eiganda eða notanda

Ekki er nauðsynlegt að hafa reikning í Loftslagsskrá til að eiga einingar eða nota fullgildar einingar á móti losun. Stjórnandi verkefnis getur „merkt“ einingar með nafni þess sem kaupir einingar eða notar þá móti losun, án þess að viðkomandi sé með reikning í Loftslagsskrá. Einingum í bið er sjálfkrafa breytt í fullgildar einingar við sannprófun, enda hefur kolefnisbindingin þá átt sér stað. Án eigin reiknings í Loftslagsskrá er erfiðara að hafa yfirlit yfir öll kaup sín á einingum og skráningu þeirra en hjá Loftslagsskrá er hægt að nálgast allar upplýsingar um skráðar kolefniseiningar, hvort sem þær eru í bið, fullgildar eða afskráðar, hverjir séu eigendur o.s.frv.

Rætt við verkefniseiganda

Leiðir til að finna einingar til kaups:

 • Skoða lista yfir eigendur verkefna sem kunna að hafa til sölu einingar í bið eða fullgildar einingar
 • Hafa samband við eigendur af listanum til að grennslast fyrir um verkefni þeirra og mögulegar einingar sem gætu hentað
 • Skoða skráðar einingar á vef Loftslagsskrár til að komast í samband við aðila sem eiga kolefniseiningar á reikningum sínum
 • Reikningseigendur hjá Loftslagsskrá geta skráð sig inn og séð einingar sem eru auglýstar til sölu á markaðstorginu

Greitt fyrir einingar

Þegar fundnar eru kolefniseiningar til að kaupa þarf að semja um verð við eiganda viðkomandi verkefnis og greiða fyrir einingarnar. Verðið er breytilegt og ræðst af ýmsum þáttum s.s. markaðsaðstæðum, kostnaði við ræktun skógarins, umhirðu hans og umsýslu, ýmsum ávinningi af skóginum o.s.frv.

Afhending eininganna

Eigandi verkefnis staðfestir kaupin á tvo vegu:

 • Hafi kaupandi reikning í Loftslagsskrá millifærir eigandi verkefnis keyptar einingar á reikninginn hans. Allar keyptar einingar sjást á einum stað og þar getur eigandinn afskráð fullgildar einingar sem eru notaðar á móti losun
 • Fyrir kaupendur sem ekki kjósa að stofna reikning í Loftslagsskrá getur verkefniseigandi:
  • Ánafnað viðkomandi kaupanda einingum í bið (verða þá flokkaðar og merktar samkvæmt því í Loftslagsskrá og þessar einingar verða sjálfkrafa fullgildar við sannprófun)
  • Afskráð fullgildar Skógarkolefniseiningar fyrir hönd kaupandans (sem getur þá séð einingarnar í Loftslagsskrá sem afskráðar og vísað til þeirra þar sem þær eru taldar fram á móti losun í grænu bókhaldi)