Spurt og svarað

Flokkar spurninga:

  1. Fagleg atriði skógræktar
  2. Stjórnsýsluleg atriði
  3. Skógarkolefni og vottun

1. Fagleg atriði skógræktar

Veldur jarðvinnsla mikilli losun kolefnis úr jarðvegi?

Jarðvinnsla er í flestum tilvikum nauðsynlegur undanfari nýskógræktar. Megintilgangur hennar er að bæta lifun og auka vöxt gróðursettra trjáplantna með því að draga úr vexti samkeppnisgróðurs, stuðla að auknum jarðvegshita og auðvelda aðgengi plantnanna að jarðraka og næringu (Mayer et al. 2020). Jarðvinnslan bætir jafnframt úrval gróðursetningarstaða og auðveldar skipulag gróðursetningarinnar (Suadicani 2003).

Áhrif jarðvinnslu á kolefnisbúskap jarðvegs ráðast m.a. af hve stórum hluta jarðvegsyfirborðsins er raskað og hve djúpt er jarðunnið. Áhrifin eru líka breytileg eftir jarðvegsgerðum, sem fer m.a. eftir því hvernig kolefnisforði jarðvegsins er samsettur og hve vel hann þolir tímabundna röskun (Mayer et al. 2020; Mäkipää 2023).

Jarðvinnsla getur aukið losun kolefnis úr jarðvegi, en það á einkum við um jarðveg sem inniheldur mikið af lítt rotnuðum gróðurleifum (Gartzia-Bengoetxea et al., 2009). Í þurrlendisjarðvegi er stór hluti jarðvegskolefnisins hins vegar geymdur í stöðugum lífrænum efnasamböndum, svokölluðum húmus (Berg 1986). Jarðvinnsla eykur ekki endilega rotnunarhraða húmussins, en dregur mögulega tímabundið úr nýmyndun húmuss á meðan gróðurþekjan er skert (Smolander et al., 2000).

Í sumum tilvikum getur jarðvinnsla jafnvel hægt á rotnunarhraða, sérstaklega þegar jarðveginum hefur verið bylt þannig að húmus hefur lent á meira dýpi en áður. Vegna þess að rotnun húmuss er háð því að rotverurnar hafi á sama tíma aðgang að ferskari og auðrotnanlegri lífrænni fæðu, þá getur jarðvinnsla til skamms tíma dregið úr losun kolefnis úr húmus (Smolander & Heiskanen, 2007).

Í heildina er tap kolefnis úr forða jarðvegs yfirleitt mjög lítið við undirbúning lands til skógræktar, sérstaklega í samanburði við þá miklu kolefnisbindingu sem á sér stað í uppvaxandi skógi (Mjöfors et al. 2017).

Heimildir:

Berg, B. 1986. Nutrient release from litter and humus in coniferous forest soils—a mini review. Scandinavian journal of forest research, 1(1-4), 359-369. https://www.researchgate.net/profile/Bjoern-Berg/publication/240525547_Nutrient_Release_from_Litter_and_Humus_in_Coniferous_Forest_Soils-a_Mini_Review/links/565d40b808ae1ef9298208a7/Nutrient-Release-from-Litter-and-Humus-in-Coniferous-Forest-Soils-a-Mini-Review.pdf

Gartzia-Bengoetxea, N., Gonzalez-Arias, A., Merino, A., & de Arano, I. M. (2009). Soil organic matter in soil physical fractions in adjacent semi-natural and cultivated stands in temperate Atlantic forests. Soil Biology and Biochemistry, 41(8), 1674-1683. https://doi:10.1016/j.soilbio.2009.05.010

Kjell Suadicani 2003. Site preparation and planting in a shelterwood. In: Maria Iwarsson Wide & Berit Baryd (Eds.), Procedings of the 2nd Forest Engineering Conference Techniques and Methods (p 40-49), 12—15 May 2003, Växjö, Sweden, pp 88. https://www.skogforsk.se/contentassets/357fd4133198432eb9cc8af594f385c4/arbetsrapport-535-2003.pdf

Mayer, M., Prescott, C. E., Abaker, W. E., Augusto, L., Cécillon, L., Ferreira, G. W., ... & Vesterdal, L. (2020). Tamm Review: Influence of forest management activities on soil organic carbon stocks: A knowledge synthesis. Forest Ecology and Management, 466, 118127. https://doi.org/10.1016/j.foreco.2020.118127

Mäkipää, R., Abramoff, R., Adamczyk, B., Baldy, V., Biryol, C., Bosela, M., ... & Lehtonen, A. (2023). How does management affect soil C sequestration and greenhouse gas fluxes in boreal and temperate forests?–A review. Forest Ecology and Management, 529, 120637. https://doi.org/10.1016/j.foreco.2022.120637

Mjöfors, K., Strömgren, M., Nohrstedt, H. Ö., Johansson, M. B., & Gärdenäs, A. I. (2017). Indications that site preparation increases forest ecosystem carbon stocks in the long term. Scandinavian Journal of Forest Research, 32(8), 717-725. https://doi.org/10.1080/02827581.2017.1293152

Smolander, A., & Heiskanen, J. (2007). Soil N and C transformations in two forest clear-cuts during three years after mounding and inverting. Canadian Journal of Soil Science, 87(3), 251-258. https://cdnsciencepub.com/doi/pdf/10.4141/S06-028

Smolander, A., Paavolainen, L., & Mälkönen, E. (2000). C and N transformations in forest soil after mounding for regeneration. Forest Ecology and Management 134: 17–28. https://doi.org/10.1016/S0378-1127(99)00242-X

Jarðvinnsla í upphafi skógræktar er ljót á að horfa og sagt er að hún geti valdið jarðvegsrofi. Er ekki hægt að sleppa henni?

Tilgangurinn með jarðvinnslu er einkum þríþættur:

  1. Að skapa gróðursetningarset þar sem samkeppni annars gróðurs við ungar trjáplöntur er minnkuð
  2. Að auka sumarhita jarðvegs
  3. Að auðvelda gróðursetningu

Allt eykur þetta lifun og vöxt trjánna og minnkar kostnað við skógrækt. Afföll eru kostnaðarsöm. Kostnaður við það að 20% nýgróðursettra plantna drepist er um 100.000 kr. á hvern hektara lands. Því er mjög mikilvægt að gera það sem hægt er til að draga úr þeim afföllum. Að tré hefji vöxt tiltölulega fljótt og vel er einnig mikilvægt, m.a. svo þau hefji kolefnisbindingu sem fyrst.

Jarðvinnsla er nauðsynleg ef gróðursetja á í þéttan eða hávaxinn gróður. Hún er einkum notuð í graslendi, lúpínubreiðum, vel grónu mólendi (t.d. fjalldrapamóum) og mosaþembum. Án jarðvinnslu væri ómögulegt að rækta skóg í þessum gróðurgerðum nema með miklum tilkostnaði og afföllum.

Jarðvinnsla með TTS-herfi hefur verið stunduð á Íslandi í 35 ár. Ekki er þekkt eitt einasta dæmi þess að hún hafi valdið jarðvegsrofi. Staðhæfingar um slíkt eru því úr lausu lofti gripnar.

Auðvelt er að taka myndir af nýlega herfuðu landi og kalla það lýti. Jarðvinnsla í skógrækt gerir þó mikið gagn og aðferðirnar sem nú eru notaðar valda ekki varanlegum skemmdum; rásirnar eru fljótar að gróa. Tímabundið lýti í landi þarf að vega á móti því ótvíræða gagni sem jarðvinnsla gerir í að draga úr dauða skógarplantna og flýta fyrir vexti og kolefnisbindingu skógarins.

Hvaða áhrif hefur jarðvinnsla á kolefnisbindingu í Skógarkolefnisverkefni?

Það jarðvinnslutæki sem nú er mest notað er svokallað TTS-herfi. Á því eru tveir gróftenntir diskar sem velta við gróðurhulunni en rista ekki djúpt. Það rýfur frekar en að skera og skapar rásir sem eru svolítið óreglulegar, ólíkt plægingu sem sker gróðurhuluna og ristir dýpra. Þótt TTS-herfing líti gróflega út í fyrstu er hún í raun vægari jarðvinnsla en flestar aðrar og land er fljótara að gróa.

TTS-herfing þurrkar ekki land og leiðir til mun minni CO2-losunar en jarðvinnsla sem ristir dýpra. Þar sem förin gróa fljótt varir CO2-losun hennar vegna stutt, enda er markmiðið að skapa góðar aðstæður fyrir ungar trjáplöntur á fyrstu árum þeirra en ekki að skapa varanleg sár. Lesa má meira um það í eftirfarandi greinum.

Í þessum greinum er fjallað um ýmsar gerðir jarðvinnslu og misjafna útkomu þeirra, m.a. í formi kolefnislosunar. Að rjúfa gróðurhuluna hleypir auknu súrefni að mold sem áður var undir gróðurhulu, auk þess sem moldin hitnar meira en ella á sólríkum sumardögum. Hvort tveggja leiðir til aukins hraða á niðurbrot lífrænna efnasambanda og þar með aukinnar losunar CO2 í andrúmsloftið. Sú aukna losun er mismikil og varir mislengi eftir því hversu djúpt jarðvinnslan ristir, hve hlýtt er að sumri og hversu lengi förin eru að gróa. Við aðstæður eins og í nýskógrækt á Íslandi og miðað við grunna herfingu (TTS) má ætla að aukin losun CO2 vari stutt (hugsanlega 2-3 ár) og verði ekki hröð vegna svalra og stuttra sumra (engin losun á sér stað þegar jörð er köld eða frosin). Það hefur þó ekki verið mælt beint hérlendis og því er þörf á slíkum rannsóknum. Hins vegar benda rannsóknir sem gerðar voru tíu árum eftir TTS-herfingu til þess að losun hafi verið lítil og hafi snúist í aukna bindingu í jarðvegi á innan við áratug (https://bg.copernicus.org/articles/6/2895/2009/bg-6-2895-2009.pdf)

Er ekki hættulegt að nota sígræn barrtré í skógrækt vegna súrnunar jarðvegs?

Umræðan um að sígræn barrtré sýri jarðveg er annars vegar innflutt vandamál (á ekki við á Íslandi) og hins vegar gamall draugur (á ekki eins við lengur). Þetta var raunverulegt vandamál fyrir 40-60 árum sums staðar í Evrópu og Norður-Ameríku og er hugsanlega enn vandamál í Kína. Í þessum heimshlutum voru líka sígræn barrtré að ósekju gerð að blóraböggli þegar hinn raunverulegi vandi var mengun af mannavöldum.

Mengunin stafaði einkum af brennisteinssýru frá kolaorkuverum og öðrum iðnaði með ónógum mengunarvörnum og frá saltpéturssýru í útblæstri bíla fyrir daga hvarfakúta. Úr hvoru tveggja hefur dregið verulega á undanförnum áratugum. Sýrurnar söfnuðust fyrir á og í laufblöðum/nálum trjáa og skoluðust síðan niður í jarðveginn þegar rigndi. Auk þess var mikið af sýrum í sjálfri rigningunni. Sígræn barrtré hafa samtals meira yfirborð á nálum sínum en laufblöð lauftrjáa, auk þess sem nálarnar eru á trénu allt árið. Þar af leiðandi söfnuðu sígrænu barrtrén meira af mengunarefnunum á sig en lauftrén, sem endaði með því að jarðvegur súrnaði meira undir þeim með tímanum. Það leiddi þó ekki til skaða nema þar sem grunnefni jarðvegs var súrt berg, t.d. granít. Þar súrnaði jarðvegur úr hófi fram og leiddi til skógardauða og skaða á vistkerfum stöðuvatna og vatnsfalla.

Á Íslandi varð aldrei vart við neitt slíkt, bæði af því að hér var ekki sýruspúandi þungaiðnaður eða mikill þéttleiki bíla fyrir daga hvarfakúta, auk þess sem hér er grunnefni jarðvegs basalt, basískt berg. Frumstæður eldfjallajarðvegur (andosol) eins og sá íslenski er sérlega ríkur af basískum katjónum sem þýðir að slíkur jarðvegur hefur hærri „jónrýmd“ og tekur lengur „súrnunaráhrifum“ trjánna án þess þó að súrna að nokkru marki.

Breytingar á sýrustigi jarðvegs eiga sér einnig stað af náttúrlegum orsökum en aldrei þannig að skaði verði af. Meðal efna sem verða til þegar plöntuleifar brotna niður við eðlilega jarðvegsmyndun eru lífrænar sýrur. Þær eru mælanlegar sem væg súrnun efsta lags jarðvegs. Mælanleiki er þó ekki það sama og skaði. Eftir því sem vöxtur gróðurs er meiri fellur til meira af niðurbrotsefnum og meira myndast af lífrænum sýrum. Slík framleiðsluaukning á sér einmitt stað í vaxandi skógi og því mælist efsta lag jarðvegs gjarnan ívið súrara í skógi en t.d. í mólendi – ekkert endilega meira í barrskógi en laufskógi þó. Sú væga súrnun gerir engan skaða, er t.d. mun minni en í votlendi, og nær ekki dýpra í jarðveginn þar sem basalt vegur á móti sýrunum.

Allt tal um að jarðvegssúrnun af völdum barrtrjáa valdi skaða hérlendis er úr lausu lofti gripið.

Hér fylgir hlekkur á vísindagrein þar sem teknar eru saman niðurstöður úr fjölda rannsókna um allan heim. Í þessari yfirlitsrannsókn var skoðað hvaða áhrif nýskógrækt hefði á súrnun jarðvegs.

Af hverju er verið að gróðursetja til skógar í algróið land? Er ekki nóg af rofnu landi til að gróðursetja í?

Sumir gagnrýna að verið sé að gróðursetja í „algróið land“. Þar býr að baki annars vegar sú hugsun að eini tilgangur skógræktar sé að græða upp örfoka land og hins vegar að hið algróna land sé í einhvers konar „ósnortnu“ ástandi. Hvort tveggja er fjarri lagi. Tilgangur með skógrækt er margháttaður, stundum uppgræðsla, stundum timburframleiðsla, stundum endurheimt vistkerfa og búsvæða, stundum útivist, stundum skjól og á seinni árum ekki síst að binda CO2 úr andrúmsloftinu til að stemma stigu við hraðfara loftslagsbreytingum. Flestum þessum markmiðum er betur hægt að ná á landi þar sem enn er mold til staðar en þar sem hún er fokin burt. Þær gróðurgerðir sem mest eru teknar til skógræktar eru rofið land, mólendi og graslendi. Allar eru þær mótaðar af upphaflegri skógareyðingu og aldalangri beit. Þær eru langt frá því að vera í upprunalegu eða ósnortnu ástandi.

Er ekki hættulegt að dreifa á Íslandi innfluttum trjátegundum sem geta orðið ágengar? 

Allar trjátegundir sem notaðar eru í skógrækt á Íslandi geta fjölgað sér. Þar með eru þær þó ekki ágengar. Samkvæmt skilgreiningu á framandi ágengri tegund í náttúruverndarlögum er það lífvera „sem veldur eða líklegt er að valdi rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni“. Til þess að lífverutegund hafi slík áhrif þarf hún að valda afgerandi breytingum á umhverfi eða lífsviðurværi annarra lífverutegunda þannig að þær rýrni (að stofnstærð, erfðafjölbreytni eða búsvæði þeirra minnki verulega). Auk þess þarf hún að hafa þau áhrif á svo stórum mælikvarða að slíkt skaði lífríkið. Skógur hefur vissulega staðbundin áhrif á lífverur. Áhrif eru misjöfn og flókin en rannsóknir benda til þess að þau feli ekki í sér almenna rýrnun á líffræðilegri fjölbreytni (sjá 4.1 Áhrif verkefnis á umhverfið).

Allar breytingar á landnotkun hafa slík áhrif, ekki aðeins skógrækt með innfluttum trjátegundum. Náttúrleg útbreiðsla birkiskóglendis vegna beitarfriðunar hefur mjög svipuð áhrif og skógrækt með innfluttum tegundum. Endurheimt votlendis hefur mun harkalegri áhrif en skógrækt, þar sem allar jarðvegslífverur drukkna á skömmum tíma. Líkt og með endurheimt votlendis er það beinlínis markmið með skógrækt að breyta lífríkinu, úr rofnu, rýru og einsleitu ástandi í gjöfula skóga.

Trén sá sér út í nærliggjandi svæði að einhverju marki og sumir ímynda sér að það verði stjórnlaus þróun sem leitt geti til þess að trjátegundirnar verði ágengar. Það er þó ólíklegt af þremur einföldum ástæðum. Sú fyrsta er að mörg ár líða frá upphafi vaxtar og þar til tré fer að blómstra og mynda fræ, oft áratugir. Það er því nógur tími til að bregðast við ef tré taka að breiðast út þar sem þau geta valdið skaða. Önnur ástæða er sú að tré eru áberandi, sem þýðir að það er auðvelt að sjá þau og fjarlægja eftir atvikum. Sú þriðja er að það er auðvelt að drepa tré.

Er það rétt að kolefnisbinding með innfluttum tegundum verði ekki tekin gild?

Það er ekki rétt. Sumir leggja áherslu á notkun innlendra tegunda í skógrækt umfram innfluttar. Þar með er ekki sagt að þær innfluttu séu úr leik. Engar vísbendingar eru um það í viðmiðum valkvæða markaðarins með kolefniseiningar að þar verði notkun innfluttra trjátegunda bannfærð. Slíkar vísbendingar er ekki heldur að finna í íslenskum eða evrópskum reglum.

Er skógrækt ekki ógn við líffræðilega fjölbreytni?

Til að vera ógn við líffræðilega fjölbreytni þarf skógrækt að rýra hana á einhvern hátt og þarf sú rýrnun að vera meiri en sá ágóði sem skógrækt hefur í för með sér fyrir líffræðilega fjölbreytni.

Til að hafa rýrnun á fjölbreytni vistgerða í för með sér þyrfti að velja sérstaklega sjaldgæfar vistgerðir til skógræktar. Það er ekki gert. Þvert á móti fer skógrækt að langmestu leyti fram á algengustu vistgerðum landsins.

Til að hafa áhrif á stofnstærðir lífverutegunda, og þar með erfðafjölbreytni þeirra, þyrfti skógrækt að vera svo víðfeðm að hún næði til verulegs hluta búsvæða þeirra. Skógrækt er það takmörkuð hér á landi að slíkt er afar ólíklegt.

Til að ógna tegundafjölbreytni þyrfti skógrækt að útrýma tegundum á þeim mælikvarða að til skaða horfði. Vegna takmarkaðs umfangs skógræktar eru slæmar afleiðingar fyrir tegundafjölbreytni afar ólíklegar.

Aukinn hlutur skóga, hvort heldur sem er með innlendum eða innfluttum tegundum, í annars að mestu skóglausu landslagi er líklegur til að auka líffræðilega fjölbreytni frekar en hitt. Ástæðan er sú að í landslagið bætast nýjar vistgerðir skógarins. Sumir vilja gera lítið úr þeim ávinningi, segja gjarnan að markmiðið sé ekki að auka líffræðilega fjölbreytni, heldur að vernda þá sem fyrir er. Sú afstaða, þ.e. að vilja vernda óbreytt ástand lífríkisins, er óviðeigandi í landi þar sem 95% skóga var eytt, um helmingur jarðvegs hefur fokið á haf út og þau vistkerfi sem eftir standa eru mótuð af margra alda áníðslu.

Er ekki skógrækt ógn við mófugla? 

Skógrækt er ekki ógn við mófugla. Fuglategundir velja sér misjöfn búsvæði til varps og fæðuöflunar. Sumar þeirra gera mjög sérhæfðar kröfur, aðrar geta notfært sér mismunandi búsvæði. Nokkrar tegundir sem við tengjum oftast við opið land hafa ekkert á móti því að verpa í skógum eða skógarjöðrum, t.d.hrossagaukur, þúfutittlingur og rjúpa. Aðrar verpa gjarnan í votlendi eða votlendisjöðrum, þar sem skógur er yfirleitt ekki ræktaður, t.d. stelkur, jaðrakan og lóuþræll. Endur og grágæsir verpa oft í skógum, gjarnan nálægt ám og stöðuvötnum. Eftir standa lóa og spói sem þær fuglategundir sem skógrækt getur helst haft áhrif á. Báðar þær tegundir eru mjög algengar hérlendis og ekki í neinni hættu vegna skógræktar.

Allar breytingar á landnotkun koma sér illa fyrir sumar lífverutegundir en vel fyrir aðrar. Meðal tegunda sem græddu á eyðingu skóga Íslands voru lágvaxnar en ljóselskar plöntutegundir, sem breiddust út þar sem áður var birkiskógur, mest nokkrar grastegundir og ýmsar breiðblaða jurtir. Slíkur gróður hentar spóa vel til varps og ætla má að honum hafi fjölgað frá því sem var fyrir landnám manna. Sauðfjárbeit öldum saman leiddi til aukinnar útbreiðslu sneggri gróðurs, t.d. lyngtegunda og grámosa, sem hentar lóu vel til varps og því má ætla að henni hafi einnig fjölgað mikið.

Þessar tvær fuglategundir verpa ekki í skógi. Þar með er þó ekki sagt að stofnar þeirra muni minnka við þá auknu skógrækt sem fyrirsjáanleg er. Á sama tíma og verið er að rækta nýjan skóg á um 2.000 hekturum lands á ári er unnið að því að græða upp örfoka land á a.m.k. helmingi stærra landsvæði. Þau svæði henta lóu, spóa og fleiri fuglategundum til varps, sem örfoka landið gerði ekki áður. Um það eru mörg dæmi að fuglum, ekki síst lóu og spóa, hafi stórfjölgað á landgræðslusvæðum (og reyndar skógræktarsvæðum einnig en ekki alfarið sömu tegundum). Skógar þurfa að breiðast út á mjög stórum svæðum áður en þeir fara að hafa teljandi áhrif á stofnstærðir fugla, hvort sem það erujákvæð eða neikvæð áhrif. Miðað við núverandi áform um skógrækt verða ekki tekin til skógræktar nema fáein prósent af kjörlendi lóu, spóa og annarra mófuglategunda (sjá erindi Arnórs Snorrasonar á Fagráðstefnu skógræktar 2023)

Ætti ekki að leggja áherslu á innlendar trjátegundir eins og birki frekar en innfluttar tegundir? 

Skógrækt er stunduð með tiltekin markmið í huga og þessi markmið hafa mest áhrif á tegundavalið. Þetta eru yfirleitt markmið á borð við kolefnisbindingu, timburframleiðslu, jarðvegsvernd, vatnsvernd, sköpun búsvæða, útivist, skjól o.m.fl. Áhrif á tegundaval hafa einnig þættir á borð við staðsetningu á landinu, frjósemi lands, veðurfar og fleira sem gæti takmarkað árangur. Loks eru það eiginleikar trjánna, svo sem viðargæði, vaxtarhraði, endanleg stærð o.fl. sem haft getur áhrif á tegundaval. Uppruni viðkomandi trjátegundar hlýtur að vera mjög neðarlega á lista yfir atriði sem áhrif ættu að hafa á tegundaval til skógræktar.

Hver trjátegund hefur sína kosti og galla m.t.t. þeirra markmiða sem sett eru. Birki hefur helst þann kost að byrja tiltölulega fljótt að sá sér og breiðast út. Það gagnast við skógrækt til uppgræðslu á víðfeðmum svæðum. Birki er hins vegar seinvaxið á rýru landi og því krefst ræktun þess á slíkum svæðum aukaaðgerða á borð við sáningu lúpínu með birkinu eða endurtekna áburðargjöf. Það er einnig smávaxið í samanburði við margar aðrar tegundir sem völ er á og bindur því minna kolefni og framleiðir minni nothæfan við. Þá er birki hvorki betur né verr til þess fallið en aðrar tegundir að skapa búsvæði fyrir fjölda annarra lífvera.

Þrátt fyrir þetta er birki mest gróðursetta trjátegundin á Íslandi og stjórnvöld hafa sett sér það markmið með svokallaðri Bonn-áskorun að 5% landsins verði klædd birkiskógi. Það er markmið um aukna útbreiðslu svokallaðra náttúruskóga eða innlendra skóga. Mikil áhersla er því lögð á innlendar trjátegundir á Íslandi, þótt það eigi ekki við um t.d. kolefnisverkefni.

Ógnar skógrækt ekki landbúnaði á Íslandi?

Skógrækt er landbúnaður og getur því ekki verið ógn við hann. Land sem hentar til túnræktar eða akuryrkju er oft flatt með tilheyrandi frosthættu og grasgefið. Það er því ekki eftirsóttasta landið til skógræktar. Tré vaxa betur í brekkum. Hitt er svo annað mál að ekki eru öll tún í notkun, né heldur allt land sem hægt væri að nota til akuryrkju. Vel má vera að einhvern tíma verði þörf á að nota allt ræktanlegt land til matvælaframleiðslu, en það er nokkuð langt í þá framtíð. Það er þó ekki sjálfgefið að heyframleiðsla eða kornrækt hljóti að vera á einhvern hátt mikilvægari, göfugri eða ábatasamari en skógrækt. Svo er ekkert því til fyrirstöðu að fjarlægja skóg og taka land til annarrar ræktunar ef þörf krefur. Ef landnámsmenn gátu gert það með deigum járnöxum og trépálum, þá er það auðvelt verk á okkar tímum með öllum þeim stórvirku vinnuvélum sem bændur eiga. Það er því fyrst og fremst landeigandans að ákveða hvernig hann vilji nota landið. 

Ógnar skógrækt ekki fornleifum?

Skógrækt getur raskað fornleifum. Það getur gerst með slóðagerð, jarðvinnslu til undirbúnings skógræktar og einnig geta rætur stórra trjáa raskað fornleifum. Hins vegar er það alls ekki ásetningur skógræktarfólks að raska fornleifum og auðvelt er að forðast slíkt rask. Það er þó ekki gert með fornleifaskráningu, sem felur í sér gerð skýrslu sem síðan er ekki lesin, t.d. ekki af manninum á jarðvinnslutækinu. Leiðin er sú að auðkenna staðsetningu fornleifa á kortum sem fylgja ræktunaráætlun skógarins, helst með GPS-hnitum. Þau kort hafa þeir sem jarðvinna, gróðursetja eða leggja slóðir síðan með sér við verkin og forðast þannig rask á fornleifum. Lærðir skógfræðingar vinna ræktunaráætlanir fyrir skógræktarverkefni og taka þar tillit til ýmissa laga og reglna, meðal annars um fornleifar eða minjavernd en líka laga og reglna um náttúruvernd, skipulag o.fl.

Eru tölur um trjávöxt og þar með kolefnisbindingu ekki ofmetnar?

Víða um heim eru birtar tölur um trjávöxt og kolefnisbindingu skóga og athygli vekur að þær eru oft lægri en þær sem birtar eru hér á landi og notaðar m.a. í Skógarkolefnisreikni. Skýringin er sú að heildartölur kolefnisbindingar og kolefnisforða skóga miðast við alla skóga viðkomandi lands og í flestum löndum er þar hátt hlutfall náttúruskóga sem ýmist vaxa á erfiðum svæðum eða eru komnir á þann aldur að þar er lítill sem enginn nettóvöxtur lengur (gömul tré drepast og ný vaxa í staðinn). Það sama á við um íslenska náttúruskóga, að árleg kolefnisbinding þeirra er að jafnaði mjög lítil, eða vel innan við 1 tonn CO2 á hverjum hektara á ári. Í verkefnum Skógarkolefnis og spám Skógarkolefnisreiknis er hins vegar einungis fengist við vöxt ræktaðra skóga á fyrstu 50 árum æviskeiðs skógarins, þegar vöxtur er hvað mestur. Þær tölur eru því hærri og ekki sambærilegar við meðalvöxt allra skóga í tilteknu landi.

Er jarðvegur greniskóga rofgjarnari en annar jarðvegur?

Stutta svarið við þessari spurningu er nei. Jarðvegsrof í skógum er afar fátítt og það á jafnt um greniskóg sem aðrar gerðir skóga.

Þessi sérkennilegi kvittur um rofgirni greniskógajarðvegs hefur komist á kreik vegna rangtúlkunar á niðurstöðum á ísigi vatns í mismunandi landgerðum í rannsókn Berglindar Orradóttur (Orradóttir 2018). Einn af stöðunum í þeirri rannsókn var lítill grenireitur í Gunnarsholti, svokallaður Kvenfélagsreitur. Aðrar landgerðir voru rofið land, lúpínusvæði, graslendi og birkiskógur. Rannsóknin fór fram bæði að vetrarlagi og sumarlagi og fólst í því að mæla hve hratt vatn gæti sigið niður í jarðveginn á rannsóknarstöðunum. Vegna snjóleysis í greniskóginum um veturinn var meiri jarðklaki í honum en í jarðvegi flestra hinna rannsóknarstaðanna. Þar af leiðandi náði vatnið sem hellt var á skógarbotninn illa að síga niður. Um sumarið tók skógabotninn undir greninu hins vegar greiðlega við vatni.

Í grein Berglindar kom fram að snjóleysið í grenireitnum stafaði aðallega af því að snjórinn sat eftir á greinum trjánna. Þessi staðreynd um dreifingu snævarins í barrskógum er vel þekkt og það sama á við um sumarúrkomuna; hún fer að miklu leyti í að væta trén og nær ekki nema að hluta til niður á skógarbotninn, aðallega það sem drýpur niður af blautum trjánum. Hitt gufar upp af trjánum. Mikill vatnsagi í skógarbotninum er því afar ólíklegur. Þessu sleppa þeir sem vilja rangtúlka niðurstöðurnar.

Heimild

Orradottir B., S. R. Archer, O. Arnalds, L. P. Wilding & T. L. Thurow (2008) Infiltration in Icelandic Andisols: the Role of Vegetation and Soil Frost, Arctic, Antarctic, and Alpine Research, 40:2, 412-421, https://www.tandfonline.com/doi/full/10.1657/1523-0430(06-076)[ORRADOTTIR]2.0.CO;2

2. Stjórnsýsluleg atriði

Á að rækta skóg hvar sem er? Á að drekkja Íslandi í skógi? 

Slíkt stendur ekki til og er ekki hægt. Þessar ýktu upphrópanir (frekar en alvöru spurningar) eru þó til marks um að fólki er ekki sama um ásýnd lands og útsýni. Einnig benda þær til þess að fólk hafi ekki kynnt sér þær skipulagslegu, fjárhagslegu og náttúrufarslegu hömlur sem á skógrækt eru.

Í fyrsta lagi er skógur ekki ræktaður á friðlýstu landi (um fjórðungur Íslands) og sjaldnast á öðrum verndarsvæðum eða vistkerfum sem njóta sérstakrar verndar. Þá eru hér veðurfarsleg hæðarmörk sem takmarka hversu hátt sé hægt að fara með skógrækt. Önnur landnotkun, einkum önnur ræktun og beitarnytjar, kemur í veg fyrir að skógur verði ræktaður eða breiðist út á öllum þorra landsins. Mikilvirkustu hömlurnar eru þó stofnkostnaður skógræktar, sem er á bilinu 400-800 þúsund krónur á hvern hektara ræktaðs skógar.

Lengst af hefur ríkið verið eini aðilinn sem fjárfest hefur í skógrækt að einhverju marki. Nú er einkageirinn byrjaður að sýna skógrækt á Íslandi áhuga og hefur það aukið gróðursetningu nokkuð. Fjármögnun þarf þó að margfaldast til að högg sjái á vatni; svo lítil er hún samanborið við landstærðir á Íslandi. Með auknum skógræktaraðgerðum gætu tvö prósent landsins orðið ræktaður skógur um næstu aldamót. Það er mjög lítið.

Af hverju er svona flókið að hefja skógrækt?

Samkvæmt 13. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010 er gert ráð fyrir að „meiri háttar framkvæmdir sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess“ séu háðar framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarfélags. Ljóst er að skógrækt breytir ásýnd umhverfisins en hvað teljist „meiri háttar framkvæmd“ er meira túlkunaratriði. Er þar yfirleitt miðað við hversu víðfeðm fyrirhuguð skógrækt sé að flatarmáli. Um það hversu stórt skógræktarsvæði teljist meiri háttar eru skiptar skoðanir. Eina viðmiðið sem finna má í lögum eru 200 hektarar, en skógrækt á stærri svæðum en það er tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar vegna umhverfismats skv. 1. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

Mörg sveitarfélög miða einnig við þessa umræddu tölu (200 ha) við ákvörðun um hvað teljist meiri háttar og krefjast ekki framkvæmdaleyfis vegna skógræktar á minni svæðum. Önnur sveitarfélög hafa lægri viðmið eða telja að öll skógrækt, sama hversu smá hún er í sniðum, skuli vera framkvæmdaleyfisskyld, m.ö.o. sé öll skógrækt „meiri háttar“. Sveitarfélag sem krefst framkvæmdaleyfis getur um leið krafist þess að fram fari fornleifaskráning. Það er þó ekki skylda ef sú fornleifaskráning sem fór fram við gerð aðalskipulags er talin nægja. Sveitarfélag getur einnig ákveðið að óska eftir umsögnum ýmissa aðila sem gætu haft skoðanir á skógrækt á viðkomandi svæði. Slíkt er þó sjaldgæfara, enda er það ávallt viðkomandi landeigandi sem sækir um leyfið. Hvað öðrum finnst er í lagalegu tilliti léttvægara en stjórnarskrárvarinn eignarréttur og athafnafrelsi landeigandans. Framkvæmdaleyfisferlið tekur allt frá 1-2 mánuðum og upp í meira en ár.

Auk þess að krefjast framkvæmdaleyfis hafa tvö sveitarfélög einnig farið fram á að flokkun lands skv. aðalskipulagi skuli fyrst breytt, úr „landbúnaði“ í „landgræðslu og skógrækt“ áður en hægt sé að veita framkvæmdaleyfi. Ferlið við að breyta aðalskipulagi felur í sér undirbúning, auglýsingu og umsagnarferli sem tekur minnst nokkra mánuði og stundum nokkur ár. Það er því ljóst að þau sveitarfélög sem krefjast slíks leggjast þar með gegn skógrækt (eða gegn viðkomandi landeiganda). Það gæti verið tilefni til skaðabótakröfu landeigandans á hendur sveitarfélaginu, en á það hefur ekki enn reynt í dómskerfinu hvað skógrækt varðar.

3. Skógarkolefni og vottun

Hvað er vottun og hvaða máli skiptir hún? 

Vottun er ferli sem ætlað er að tryggja að farið sé eftir tilteknum gæðaviðmiðum við tiltekna framleiðslu, í þessu tilviki framleiðslu kolefniseininga með nýskógrækt. Hún felur í sér skráningu og mælingar á öllum þeim atriðum sem skipta máli skv. gæðaviðmiðunum. Gæðaviðmiðin í þessu tilviki eru þær kröfur sem settar eru fram í Skógarkolefni. Síðan eru allar skráningar og mælingar teknar út og staðfestar af óháðum aðila, vottunarstofu með viðeigandi faggildingu. Í þessu tilviki miðast faggildingin við staðalinn ISO 14065. Gæðaviðmiðin og faggildingin eru gögn sem allir geta kynnt sér og því er vottunarferlið ljóst, gagnsætt og trúverðugt. Sé vara vottuð á kaupandinn að geta treyst því að hún standist gæðaviðmiðin. Án vottunar er slíkt traust ekki endilega til staðar. Það getur m.a. haft áhrif á verð vöru eða trúverðugleika og traust viðkomandi fyrirtækis.

Er Skógarkolefni ekki bara heimatilbúnar reglur og tekur einhver mark á slíku? 

Allir staðlar, gæðaviðmið eða kröfusett eru „heimatilbúin“, þ.e.a.s. þróuð af einhverju fólki í einhverju landi. Það er sammerkt með öllum stöðlum og kröfusettum að af þeim þarf að fást reynsla áður en líklegt er að þeir verði t.d. notaðir víðar en í heimalandinu. Upplýsingar um Skógarkolefni eru öllum aðgengilegar á vefs Skógarkolefnis, bæði á ensku og íslensku. Tilvonandi kaupendur kolefniseininga með Skógarkolefnisvottun geta því metið hvort þeir telja sig geta tekið mark á Skógarkolefni eða ekki. Því meira sem kerfið er notað því betur verður það þekkt og því meiri líkur eru á að fólk taki mark á því. Þær viðtökur sem Skógarkolefni hefur fengið lofa góðu um traust á þessu kröfusetti enda er byggt á gæðastaðlinum ISO 14065. Gæðastimpill er líka að vottunarstofan iCert skuli hafa samþykkt að votta samkvæmt Skógarkolefni, enda byggist starfsleyfi vottunarstofu á því að hún fari eftir ströngum reglum.

Hverjir mega annast úttektir og hverjir mega votta Skógarkolefnisverkefni?

Í kröfusetti Skógarkolefnis er skýrt kveðið á um að staðfesting (verification) og sannprófun (validation) verkefna sé eingöngu á hendi sjálfstæðs þriðja aðila sem hlotið hefur viðeigandi faggildingu. Hlutverk vottunaraðilans er að yfirfara nauðsynleg gögn um verkefnin, þ.m.t. áætlanir, spár, skýrslur, vettvangsathuganir, yfirlýsingar o.fl. til að fullvíst sé að verkefnið sé rekið í samræmi við kröfur Skógarkolefnis.

Gögnin sem verkefni leggja fram til vottunar geta verið unnin af starfsmönnum eða eigendum þeirra, eða verktökum á þeirra vegum. Þetta getur m.a. átt við um úttektir á vexti og þrifum trjáa sem eru m.a. grunnur mats á kolefnisbindingu. Ef verkefni biðja vottunaraðila um að annast skógarúttekt, þá er vottunaraðila frjálst að kalla til verktaka með fagþekkingu til verksins.

Ekkert í kröfusetti Skógarkolefnis hamlar opinberum aðilum að taka að sér þjónustu við verkefnin, en gæta þarf að samkeppnislögum vegna einkaaðila sem bjóða sömu þjónustu.

Af hverju ætti ég að velja Skógarkolefni frekar en þekktari erlend kröfusett á borð við VERRA og Gold Standard? 

Grundvallaratriði allra þessara kröfusetta eru þau sömu. Þau tryggja öll að viðmið um viðbót, varanleika, mælanleika og varnir gegn leka séu í hávegum höfð. Auk þess gera öll þessi kröfusett kröfur um skráningu á lögformlegum atriðum er varða eignarhald, ábyrgð eigenda, að farið sé að lögum og að aðgangur sé tryggður að öllum viðeigandi upplýsingum. Þau duga því öll til öruggrar vottunar á CO2-bindingu skóga. Sum kröfusett hafa ekki síst verið þróuð með tilliti til þarfa verkefna sem unnin eru í þróunarlöndunum, þar sem oft er meiri þörf á aukaaðgerðum til að tryggja framgang verkefna. Þá fást þau gjarnan einnig við margar aðrar tegundir verkefna en skógrækt og eru þess vegna flókin. Skógarkolefni er einungis ætlað að eiga við um vottun nýskógræktar á Íslandi. Það er því hnitmiðaðra en stærri og umfangsmeiri kröfusett frá öðrum löndum.

Af hverju geta skógarbændur með skógræktarsamning við Skógræktina ekki fengið vottaðar kolefniseiningar úr skógi sínum? 

Markmið valkvæða markaðarins með kolefniseiningar er að hvetja til raunverulegra aðgerða í loftslagsmálum. Verkefni til sköpunar slíkra eininga þurfa því að uppfylla nokkur skilyrði og eitt það helsta er að loftslagsávinningurinn þarf að vera viðbót við það sem fyrir er eða hefði hvort eð er gerst. Eldri skógar eru „það sem fyrir er“ og geta því ekki talist viðbót. Þeir binda vissulega CO2 úr andrúmsloftinu, en sala kolefniseininga úr þeim hvetur ekki til aukinnar bindingar því þeir eru hvort eð er að binda. M.ö.o. vill enginn kaupa þá kolefnisbindingu sem á sér stað hvort eð er. Grundvallaratriðið í svokallaðri viðbót er að sá sem vill telja kolefnisbindingu fram á móti losun „búi til nýja bindingu“, þ.e.a.s. stuðli að bindingu sem ella hefði ekki orðið. Ekkert framlag til loftslagsbaráttunnar felst í því að fá að telja sér til tekna bindingu sem einhver annar stofnaði til og hefði hvort sem er orðið.

Er hægt að flétta saman hefðbundin ríkisstyrkt kolefnisverkefni og Skógarkolefnisverkefni sem gefur einingar? 

Framlög ríkisins til skógræktar á lögbýlum (áður Landshlutaverkefnin í skógrækt) sem nema allt að 97% af stofnkostnaði skógræktar flokkast einnig sem „það sem fyrir er“ (sjá næstu spurningu á undan), þar sem fjármögnunin er ekki sérstaklega ætluð til að efla loftslagsávinning skóganna. Væri styrkhlutfallið lægra, t.d. 50%, og það sem upp á vantaði fjármagnað sérstaklega með CO2-bindingu í huga, mætti færa fyrir því rök að viðkomandi verkefni ætti sér ekki stað nema vegna loftslagsaðgerða. Í slíkum tilvikum stæðist skógræktin kröfuna um að vera viðbót og væri vottunarhæf. Þá þyrftu landeigandinn og fjármögnunaraðilinn að semja um skiptingu eignarhalds kolefniseininganna. Rétt er að taka fram að þetta á einungis við um nýræktun skóga eftir að fjármögnun á hlut mótaðilans (ekki ríkisins) liggur fyrir, ekki eldri skóga sem þegar hafa verið fjármagnaðir og ráðist í ræktun á.

Hvenær fást fyrstu seljanlegu einingarnar úr Skógarkolefnisverkefni? 

Þegar gróðursetningu er lokið og ljóst er orðið hvaða tegundir hafa verið gróðursettar og í hve stórt svæði fer staðfesting verkefnisins fram. Þegar vottunarstofa skilar staðfestingarskýrslu og sá fjöldi kolefniseininga í bið, sem sú skýrsla staðfestir, er skráður í Loftslagsskrá Íslands er strax hægt að selja einingar í bið. Þetta getur gerst 1-5 árum eftir upphaf gróðursetningar.

Hvenær fást fyrstu fullgildu einingarnar úr Skógarkolefnisverkefni sem telja má fram á móti losun í grænu bókhaldi? 

Tíu árum eftir staðfestingu er gert ráð fyrir fyrstu sannprófun. Við það verða kolefniseiningar þær sem orðið hafa til í skóginum síðustu tíu árin að fullgildum Skógarkolefniseiningum og þá er hægt að selja þær sem slíkar ef þær hafa ekki þegar verið seldar sem einingar í bið.

Hvernig get ég verið viss um að spá um kolefnisbindingu rætist og kolefniseiningar verði til úr skóginum mínum? 

Fullkomin vissa er ekki til í þessum heimi. Hins vegar er  Skógarolefnisreiknirinn sem notaður er til að spá fyrir um kolefnisbindingu skóga byggður á áratuga mælingum trjáa af mismunandi tegundum við mismunandi skilyrði. Hann er m.ö.o. byggður á rauntölum um hvernig tré vaxa á Íslandi. Allar líkur eru á því að þau muni halda áfram að vaxa að minnsta kosti í takti við þessar mæliniðurstöður. Til að breyta trjávexti í kolefnisbindingu eru síðan notaðar sömu jöfnurnar og notaðar eru í loftslagsbókhaldi Íslands til IPCC. Þetta er eins öruggt og hægt er að hafa það. Í kröfum Skógarkolefnis er gert ráð fyrir mögulegum áföllum og hvernig bregðast skuli við þeim. Nánar má lesa um það í kröfunum, t.d. í kaflanum 2.3 Öryggi og varanleiki.

Eru Skógarkolefniseiningar góð fjárfesting? 

Markaður fyrir vottaðar einingar ýmiss konar kolefnisbindingar í heiminum er mjög stór og fer ört vaxandi. Skv. Ecosystem Marketplace jókst fjöldi seldra kolefniseininga um meira en 20% árið 2022 og verð um helmings eininganna hækkaði um meira en 20%. Þar kom einnig fram að grænar lausnir (t.d. skógrækt) eru vinsælli en tæknilausnir og að meiri eftirspurn er eftir dýrari og öruggari einingum en þeim sem óöruggari eru. Skógrækt á Íslandi er því góður kostur. Rétt er þó að taka fram að í allri fjárfestingu felst einhver áhætta og líklegt er að verðsveiflur verði. Verð kolefniseininga er þó mikið upp á við sem stendur (2023).

Má nokkuð selja kolefniseiningar til aðila í öðrum löndum?

Skógarkolefni miðast við hinn alþjóðlega valkvæða markað með kolefniseiningar og þær reglur eða venjur sem þar gilda. Loftslagsskýrsla Íslands sem skilað er árlega til IPCC er annar hlutur, þ.e. bókhald en ekki markaður. Kolefni sem bundið er með skógrækt á Íslandi er hluti af kolefnisbókhaldi Íslands til IPCC og getur ekki verið hluti af bókhaldi annarra ríkja á þeim vettvangi. Hins vegar getur eignarhald á þeirri kolefnisbindingu verið í höndum hvers sem er. Erlendir aðilar geta því fjármagnað og átt kolefnisbindingu á Íslandi og notað þá bindingu á móti losun í sínu græna bókhaldi. Það eina sem þarf að passa upp á er að sú binding rati ekki inn í skýrslur annars ríkis til IPCC.

Þarf ekki að bíða í 50 ár áður en kolefnisbindingin á sér stað?

Skógur bindur lítið kolefni fyrstu 3-5 árin meðan trén eru að koma sér fyrir og hefja vöxt. Eftir það eykst bindingin samfara vexti trjánna og nær yfirleitt hámarki eftir 20-30 ár. Samkvæmt kröfum Skógarkolefnis má ekki afskrá kolefniseiningar á móti losun (kolefnisjafna) í grænu bókhaldi fyrr en einingar eru fullgildar, þ.e. ekki fyrr en kolefnisbindingin hefur átt sér stað í skóginum og verið staðfest og sannprófuð. Í Skógarkolefni er gert ráð fyrir að fyrsta sannprófun á bindingu skógarins fari fram 10 árum eftir staðfestingu sem fram fer við lok gróðursetningar (stofndag verkefnis). Þá verða fyrstu einingarnar fullgildar. Síðan fullgildast fleiri og fleiri einingar við hverja sannprófun eftir það, allt eftir því sem meiri binding staðfestist í skóginum. Hins vegar er rétt að nefna að skógareigandi er skuldbundinn til að viðhalda skóginum, og þar með kolefniseiningunum, í minnst 50 ár, svo bindingin hafi a.m.k. þann varanleika.

Hvað gerist eftir 50 ár?

Vottun skv. Skógarkolefni nær til 50 ára af því að hún byggist á spám um kolefnisbindingu. Eðli málsins samkvæmt verða spár óábyggilegri eftir því sem þær ná lengra fram í tímann, því forsendur þeirra hafa tilhneigingu til að breytast. Þó að spá um kolefnisbindingu í upphafi verkefnis nái ekki lengra en til 50 ára er gert ráð fyrir að hún verði uppfærð með tímanum og nái þá til lengri tíma. Í flestum skógum gerist því ekkert sérstakt á 50 ára afmælinu. Skógareigandinn mun væntanlega eiga þess kost að framlengja vottunartímabilið og halda áfram að selja vottaðar kolefniseiningar.

Áætluð árleg kolefnisbinding í 50 ár m.v. mismunandi trjátegundir

Er ekki hætta á að skógurinn verði felldur þegar verkefninu lýkur? 

Sú hætta er alltaf fyrir hendi að skógur verði felldur ef slíkt hentar landeigandanum einhverra hluta vegna. Samningar um vottun skv. Skógarkolefni draga þó verulega úr þeirri hættu. Ágóði af sölu kolefniseininga er hvati til að viðhalda skóginum því hann getur áfram getið af sér seljanlegar einingar með framlengdu verkefni. Loks má nefna að skógræktarlög setja hömlur á fellingu skóga. Telja verður líklegt að slík ákvæði verði áfram í lögum eftir 50 ár enda skógar mikilvægir fyrir kolefnisbúskap jarðar og ótalmargt annað. Þó svo að hætta á skógareyðingu af ásetningi sé til staðar er ekki þar með sagt að hún sé líkleg. Það er því engin ástæða til að telja það líklegt, að skógur verði felldur eftir að vottunarverkefni lýkur.

Heldur binding áfram eftir að verkefninu lýkur? 

Mestar líkur eru á að Skógarkolefnisverkefni verði framlengd eftir fyrsta 50 ára tímabilið því kolefnisbinding heldur áfram og þar með möguleikinn á að selja kolefniseiningar. Eftir því sem skógurinn eldist kemur þó að því að árleg binding verði lítil og hún snýst að lokum í losun í hrörnandi skógi. Áður en það gerist er rétt að huga að endurnýjun skógarins þannig að árleg kolefnisbinding viðhaldist í formi vaxtar yngri trjáa sem taka við af þeim gömlu. Sé rétt að málum staðið er hægt að viðhalda kolefnisforða og kolefnisbindingu til frambúðar, með einhverjum sveiflum í magni þó.

Getur kolefnisskógur líka gefið af sér timburafurðir? 

Kolefnisskógur getur gefið af sér timburafurðir. Eftir því sem tré stækka er pláss fyrir færri tré á hverja flatarmálseiningu lands. Tré sem lenda undir í samkeppninni um pláss drepast í skugga þeirra stærri. Það kallast sjálfgrisjun og gerist í öllum skógum. Grisjun skóga líkist sjálfgrisjun nema hvað trén eru fjarlægð áður en þau drepast og yfirleitt í einni aðgerð. Það sem skiptir máli er að grisjun sé ekki teljandi meiri en það sem hefði eðlilega sjálfgrisjast á sama tíma, t.d. að það sem fjarlægt er einu sinni á 20 ára fresti sé nokkurn veginn það sem hefði sjálfgrisjast á 20 árum. Þá viðheldur skógurinn kolefnisbindingu sinni og grisjunarviðinn má nýta á ýmsan hátt.

Þegar skógar taka að eldast þarf að huga að endurnýjun þeirra. Það hefur í för með sér fellingu eldri trjáa og endurnýjun, ýmist með gróðursetningu eða sjálfsáningu. Við það skapar sala timburs tekjur fyrir skógareigandann og hluta þeirra tekna má nota til að endurnýja skóginn. Nokkrum aðferðum má beita við endurnýjunina, þ. á m. rjóðurfelllingu, stakfellingu, hópfellingu, skermfellingu og frætrjáafellingu. Þessar mismunandi aðferðir eiga misvel við eftir trjátegundum og öðrum aðstæðum. Svo fremi tryggt sé að næsta kynslóð skógar hefji vöxt strax í kjölfar fellingar, geta þær allar dugað til að viðhalda kolefnisforða svæðisins til lengri tíma og stuðla að efldri kolefnisbindingu. Í annarri kynslóð skógar þarf þó að draga frá það sem tapaðist við skógarhöggið áður en hægt er að reikna sér frekari kolefnisbindingu til tekna. Eftir atvikum verður því eitthvert tímabil þar sem ekki verður talin fram binding.

Hvað verður um viðinn úr skóginum? Verður honum ekki bara brennt og allt kolefnið losnar aftur? 

Það hlýtur að vera kappsmál í loftslagsvænni skógrækt að sem mest af timbrinu verði notað á þann hátt að það endist og þar með sé kolefnið bundið sem lengst, t.d. sem byggingartimbur. Unnið er að því að efla úrvinnslu timburs í borð og planka hérlendis. Það er þó staðreynd að grisjunarviður úr ungum skógi er grannur. Við slíka boli og aðra hluta trjáa sem ekki ná þeim sverleika að verða sagtimbur er lítið annað hægt að gera en að kurla. Hins vegar má lengja líftíma kurls á ýmsan hátt, t.d. með því að gera úr því lífkol sem nýtast sem jarðvegsbætiefni í akuryrkju. Við það varðveitist stór hluti kolefnisins í jarðvegi til langs tíma. Einnig þarf að hafa í huga að jafnvel þótt kurlið sé notað sem kolefnisgjafi við kísilmálmbræðslu, og brenni þar með upp, er það samt skárri kostur en að nota til þess innflutt jarðkol. Timbrið sem kurlað er varð til nýlega í skóginum og er því í virkri kolefnishringrás í nútímanum. Þar er kolefnisbúskapurinn í jafnvægi. Jarðkolin urðu hins vegar til á milljónum ára og þar er því tekið kolefni úr hringrás sem nær langt út fyrir athafnir okkar í nútímanum. Þar er kolefnisbúskapurinn í ójafnvægi.

Er þetta ekki allt saman grænþvottur? Hvernig er tryggt að ekki sé svindlað?

Tilgangur vottunarkerfa og tilheyrandi skráningar er einmitt sá að tryggja að ekki verði um grænþvott að ræða og draga úr hættunni á svindli eins og mögulegt er. Með  vottun skv. Skógarkolefni gengur óháður aðili (vottunarstofa með faggildingu) úr skugga um að um sé að ræða nýja bindingu (viðbót), að hún sé  mæld (raunveruleg), að hún sé til langs tíma (varanleiki) og að dregið sé úr mögulega neikvæðum þáttum eins og unnt er (leka og neikvæðum umhverfisáhrifum). Með skráningu eininga í Loftslagsskrá er tryggt að þær verði ekki notaðar/seldar oftar en einu sinni (komið í veg fyrir tvítalningu). Auk þess er þeim sem vilja nota vottaðar kolefniseiningar í grænu bókhaldi sínu ávallt bent á að fyrsta skrefið skuli vera að draga úr losun CO2 eins og mögulegt er. Til þess er líka sá hvati að vottaðar kolefniseiningar kosta sitt og það getur ekki verið markmið fyrirtækis eða einstaklings að borga meira en þörf er á. Atvinnurekandi hlýtur með öðrum orðum að draga eftir megni úr þörfinni fyrir kaup á kolefniseiningum áður en hann ræðst í slík útgjöld. Það gerir hann með því að draga úr losun vegna rekstrar síns.

Því miður eru dæmi um grænþvott eða svindl. Það á þó síður en svo við um loftslagsverkefni yfirleitt. Langflestir aðilar sem nú leggja sitt af mörkum til úrbóta í loftslagsmálum gera að af heilum hug. Skógarkolefni hjálpar þeim til þess. Góður árangur í loftslagsmálum er líka æ stærri þáttur í jákvæðri ímyndarsköpun fyrir fyrirtæki og framleiðslu. Viðskiptavinir treysta best þeim sem geta sýnt fram á viðurkennda vottun.