Vegvísir um góða starfshætti

Góðar starfsvenjur á valkvæða kolefnismarkaðnum

Fyrirtæki og stofnanir geta nú keypt kolefniseiningar á frjálsum kolefnismarkaði til að jafna á móti óhjákvæmilegri losun sem hlýst af starfsemi þeirra, vörum og þjónustu. Á sama tíma hefur verið uppi óvissa um gæði kolefniseininga á frjálsum mörkuðum og hvaða kröfum þær lúta. Góðar starfsvenjur á frjálsum kolefnismarkaði innihalda kröfur sem nauðsynlegt er að uppfylla til að kolefnisjöfnun og staðhæfingar um kolefnishlutleysi geti talist trúverðugar og taki mið af alþjóðlega samþykktum viðmiðum. Staðhæfingar um kolefnisjöfnun skulu vera skýrar, raunverulegar, mælanlegar og sannreynanlegar. Að öðrum kosti geta staðhæfingar verið álitnar villandi og mögulega dæmi um „grænþvott“. Næstum allir kolefnisstaðlar á frjálsum kolefnismarkaði nota alþjóðalega samþykkt viðmið í því skyni að tryggja gæði kolefnisinneigna.

Viðmið við vottun kolefniseininga (efni þessarar síðu)

 1. Viðbót sé staðfest
 2. Traust mat á grunnstöðu kolefnis
 3. Traustar aðferðir við gerð kolefnisspár og úttektir
 4. Vöktun og skýrslugjöf
 5. Varanleiki
 6. Komið í veg fyrir kolefnisleka
 7. Raunverulegar, óháðar, sannprófaðar og vottaðar kolefniseiningar
 8. Komið í veg fyrir tvítalningu
 9. Meginreglan „ekki valda verulegum skaða“ (DNSH)

1. Viðbót

Viðbót er mikilvæg krafa til að forðast að með verkefnum á frjálsum kolefnismarkaði sé unnið að kolefnisbindingu sem myndi hvort sem er eiga sér stað. Krafan um viðbót miðar að því að tryggja að loftslagsaðgerðir beinist í verkefni sem krefjast viðbótarfjármagns með sölu kolefniseininga og hamla þannig gegn loftslagsbreytingum. Það að verkefni skili raunverulegri viðbótarkolefnisbindingu er eina leiðin til að réttlæta að hún sé nýtt við kolefnisjöfnun á raunverulegri losun frá tiltekinni starfsemi. Viðbót er tvenns konar eðlis, fjárhagsleg viðbót og lagaleg viðbót. Nauðsynlegt er að uppfylla hvort tveggja í samræmi við góðar starfsvenjur. Almennt er sýnt fram á viðbót og hún metin sérstaklega fyrir líftíma hvers verkefnis fyrir sig. Eigandi verkefnis skal sýna fram á að honum sé ekki skylt að ráðast í verkefnið samkvæmt gildandi lögum eða stefnu stjórnvalda og að það sé ekki nógu fjárhagslega arðbært til að hægt sé að ráðast í það við núverandi markaðsaðstæður (án viðbótartekna af sölu kolefniseininga). Einungis verkefni sem binda kolefni umfram grunnstöðu geta talist leiða til viðbótar.

2. Traust mat á grunnstöðu kolefnis

Grunnstaða kolefnis á við um þá sviðsmynd sem notuð er sem upphafsviðmið við mat á loftslagsávinningi kolefnisverkefnis. Grunnstaðan lýsir áætluðum aðstæðum, ástandi og framvindu á viðkomandi landi ef ekki yrði farið þar í kolefnisverkefni. Kolefnisspá er unnin fyrir verkefnið og loftslagsávinningur þess metinn í samanburði við grunnstöðuna. Grunnstaðan skal vera trúverðug sviðsmynd af mögulegri losun gróðurhúsalofttegunda eða kolefnisbindingu ef ekki yrði ráðist í kolefnisverkefnið.

Grunnstöðu má ákvarða á tvo vegu:

 1. Stöðluð grunnstaða sem endurspeglar kolefnisbúskap við svipaðar félags-, efnahags-, umhverfis- og tæknilegar aðstæður, að teknu tilliti til landfræðilegrar stöðu
 2. Sértæk grunnstaða fyrir tiltekið verkefni metin sérstaklega af hálfu viðkomandi verkefniseiganda

Grunnstöðu skal uppfæra reglulega til að endurspegla félags-, efnahags-, umhverfis- og tæknilega þróun. Þegar grunnstaða er ákveðin er nauðsynlegt skv. góðum starfsvenjum að taka tillit til núverandi stefnu og markmiða stjórnvalda og hugsanlegra breytinga þar á. Grunnstaða ætti að taka mið af lögum og reglum, þ.e. hún skal vera í samræmi við landslög. Grunnstaða tekur einnig tillit til tilheyrandi þróunar á losun utan viðkomandi verkefnis.

3. Traustar aðferðir við gerð kolefnisspár og úttektir

Reikna þarf vænta og raunverulega kolefnisbindingu með viðurkenndum aðferðum, s.s. aðferðum sem eru þróaðar og samþykktar af alþjóðlegum stofnunum eins og UNFCCC.

Hrein kolefnisbinding = KBGrunnstaða – KBHeildarmagn – GHLAukning > 0

þar sem:

 1. KBGrunnstaða er kolefnisbinding umfram grunnstöðu
 2. KBHeildarmagn er heildarkolefnisbinding verkefnis
 3. GHLAukning er aukning á beinni og óbeinni losun gróðurhúsalofttegunda sem er tilkomin vegna framkvæmda við verkefni

Við útreikning á kolefnisbindingu verkefnis er ávinningurinn alltaf borinn saman við grunnstöðu kolefnis á staðnum, sem þýðir að kolefnisbinding er alltaf mæld með tilliti til viðbótarávinnings sem skapast af verkefninu í samanburði við grunnstöðuna, gefinn upp sem tonn af koltvísýringsígildi (t CO2-ígildi). Alla losun af völdum framkvæmda við verkefnið skal ævinlega draga frá nettókolefnisbindingu verkefnisins, þ.m.t. losun vegna framleiðslu, notkunar áburðar, flutninga, eldsneytis sem er notað o.s.frv. Enn fremur ætti að taka tillit til allrar minnkunar á kolefnisforða sem hlýst af nýskógræktinni, s.s. með grisjun.

4. Vöktun og skýrslugjöf

Vakta skal kolefnisbindingu í samræmi við þá aðferðafræði sem liggur til grundvallar og niðurstöður vöktunar settar fram á skýran hátt í vöktunarskýrslu. Niðurstöður kolefnisbindingar og skýrsla vöktunarinnar skulu vera sannprófanlegar þannig að óháður vottunaraðili sé fær um að gera úttekt á niðurstöðum kolefnisbindingar samanborið við grunnstöðu. Vakta skal nákvæmlega landfræðilega staðsetningu kolefnisbindingarinnar. Þegar kemur að framleiðslu kolefnisbindingar með skógrækt skal horfa til reglugerðar um landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt (LULUCF) sem inniheldur reglur um nákvæma vöktun og skýrslugjöf vegna kolefnisbindingar í samræmi við leiðbeiningar Milliríkjanefndarinnar um loftslagsbreytingar (IPCC). Reglurnar sem mælt er fyrir um í LULUCF-reglugerðinni hvetja til vöktunar á landnotkun á landfræðilega skýran hátt, með litlum tilkostnaði og tímanlega, t.d. með stafrænum gagnagrunnum, landfræðilegum upplýsingakerfum (GIS) og fjarkönnun eða þjónustu sem býðst á almennum markaði.

Fylgjast skal nákvæmlega með kolefnisbindingaraðgerðum og skrá skal niðurstöðurnar í vöktunarskýrslu. Í vöktunarskýrslunni skal koma skýrt fram umfang þeirrar kolefnisbindingar sem hlýst af verkefninu á viðkomandi vöktunartímabili, tilgreint í tonnum koltvísýringsígilda (t CO2-ígildi). Þá þarf að gera grein fyrir þeim stuðlum sem notaðir eru til að meta losun vegna verkefnisins og hvernig þeir eru vaktaðir á verkefnistímanum. Magn kolefnisbindingar í tonnum koltvísýringsígilda segir til um fjölda kolefniseininga sem mögulegt er að selja úr verkefninu.

5. Varanleiki

Almenna reglan er sú að kolefnisbinding, sem liggur til grundvallar kolefniseiningum, skal vera varanleg til að viðkomandi verkefni stuðli raunverulega að því að hamla gegn loftslagsbreytingum. Vakta skal og stjórna eins og kostur er hvers kyns ógn sem steðjað getur að varanleika verkefnisins og bæta skal upp með sannanlegum hætti alla mögulega skerðingu á kolefnisforða verkefnis. Varanleiki er þýðingarmikill þáttur í kolefniseiningum sem notaðar eru til að jafna á móti losun eða sem tæki til að ná loftslagsmarkmiðum Íslands.

Samkvæmt góðum starfsvenjum skal tryggja eins og frekast er unnt varanleika kolefnisbindingar. Vakta skal mögulega áhættu sem ógnað gæti varanleikanum með nauðsynlegum inngripum eftir þörfum. Bæta skal upp alla mögulega skerðingu á kolefnisforða verkefnis. Í góðum starfsvenjum er oft mælt með því að varanleiki nái yfir 100 ár, þó að undanskildum landnotkunarverkefnum þar sem kolefnisbinding sem verður til vegna loftslagsaðgerða er almennt talin varanleg og langvarandi. Í kolefnisstöðlum er leitast við að beita ýmsum aðferðum til að ákvarða varanleikann og hafa stjórn á þeirri áhættu sem fylgir. Þó má gera ráð fyrir nokkrum mun á kolefnisverkefnum eftir gerð þeirra og gjarnan einnig á aðferðafræðinni sem liggur til grundvallar. Í Skógarkolefni er varanleikinn 50 ár.

Fyrir mismunandi kolefnisstaðla hafa verið þróaðar margs konar aðferðir til að koma böndum á þá áhættu sem fylgt getur kolefnisbindingu með landnotkunarverkefnum. Dæmi um slíkar aðferðir eru tryggingareiningar, ábyrgð á tjóni sem verður til þess að kolefniseiningar falla niður eða takmarkanir á hlutfalli eininga sem er leyfilegt að úthluta, þar sem aðeins er leyfilegt að selja hluta af þeim kolefniseiningum sem gert er ráð fyrir að hljótist af verkefninu. Einnig eru til tímabundnar einingar sem þarf að endurnýja þegar gildistími þeirra rennur út. Sem hluta af skipulagningu kolefnisverkefnis skal verkefniseigandi meta varanleika kolefnisbindingar og hættuna á tjóni, bæði vegna rasks sem verða kann af mannavöldum eða af náttúrlegum orsökum.

6. Komið í veg fyrir kolefnisleka

Kolefnisverkefni á frjálsum kolefnismarkaði skulu ekki leiða til aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda eða skerðingar á kolefnisforða annars staðar, þ.e. utan þess sem kolefnisbókhald verkefnisins nær til. Óhjákvæmilegt er að taka kolefnisleka með í reikninginn í kolefnisverkefnum með nýskógrækt. Þegar kolefni er fangað með nýskógrækt verður ávinningur þess að vega þyngra en sú mögulega óbeina losun eða kolefnisleki sem orðið getur vegna breytinga á landnotkun.

Gæðaviðmið fyrir kolefniseiningar:

 1. þrep. Mat á lekaáhættu í tengslum við tegund verkefnis. Allar hugsanlegar uppsprettur leka þekktar og greindar.
 2. þrep. Útskýring á því hvernig mögulegri losun frá leka er haldið í lágmarki og hvernig tillit er tekið til allrar losunar við útreikning á niðurstöðum kolefnisbindingar, með hæfilegu tilliti til óvissu eða skekkjumarka.

7. Raunverulegar, óháðar sannprófaðar og vottaðar kolefniseiningar

Kolefnisbinding verður raunveruleg þegar skógurinn fer að vaxa. Fyrr er ekki hægt að gefa fullgildar kolefniseiningar út í Loftslagsskrá sem eigandi þeirra getur notað til kolefnisjöfnunar á móti losun. Til að hægt sé að gefa út kolefniseiningar þarf þar til bær þriðji aðili að sannprófa kolefnisbindinguna. Kolefnisstaðlar hafa verið þróaðir til að tryggja gæði kolefniseininga og mynda þannig ramma til að sannprófa og votta kolefnisverkefni og þann ávinning sem þeim fylgir.

Staðhæfingar um kolefnisbindingu skulu vera ósviknar, traustar, gagnsæjar, tilkynntar, vaktanlegar, sannprófanlegar, trúverðugar og vottaðar. Slíkar staðhæfingar mega ekki grafa undan eða vinna gegn aðgerðum til að draga úr losun í viðkomandi atvinnugreinum. Að baki staðhæfingunum skal einnig vera tryggt að viðkomandi verkefni séu viðbót og að það kolefni sem verkefnið hefur bundið sé talið fram í viðeigandi landsbókhaldi fyrir gróðurhúsalofttegundir.

Raunveruleg kolefnisbnding: Samkvæmt góðum starfsvenjum skal kolefnisverkefni endurspegla raunverulega kolefnisbindingu.

Óháð staðfesting og sannprófun: Óháður þriðji aðili verður að staðfesta og sannprófa kolefnisbindingu verkefnisins.

Vottun: Kolefnisverkefni og bindingu þess skal votta samkvæmt viðurkenndum kolefnisstaðli. Um kolefnisstaðalinn skal viðhafa skilvirka stjórnunarhætti sem tryggja gagnsæi, ábyrgð og gæði kolefniseininga.

8. Komið í veg fyrir tvítalningu

Að koma í veg fyrir tvítalningu getur átt við um mismunandi aðstæður. Að koma í veg fyrir tvöfalda útgáfu og tvöfalda notkun þýðir að sömu kolefniseiningar eru ekki gefnar út undir fleiri en einum kolefnisstaðli eða notaðar oftar en einu sinni af mismunandi kaupendum. Að komast hjá tvöfaldri kröfu eða staðhæfingu þýðir að kolefnisbinding sem liggur til grundvallar kolefniseiningu er ekki gefin upp í kolefnibókhaldi hjá fleiri en einu fyrirtæki. Til að komast hjá tvítalningu milli ríkis og aðila utan ríkis þarf annað hvort að undanskilja viðkomandi kolefnisbindingu í kolefnisbókhaldi stjórnvalda eða að stjórnvöld geri samsvarandi leiðréttingu (e. corresponding adjustment) til að undanskilja hana í reikningsskilum vegna eigin loftslagsmarkmiða. Kolefnisstaðlar miða að því að koma í veg fyrir tvöfalda útgáfu og tvöfalda notkun kolefniseininga með skráningu eininga í kolefnisskrá á borð við Loftslagsskrá Íslands, með viðeigandi lykilupplýsingum, þ.m.t. raðnúmerum. Komið er í veg fyrir tvínotkun með því að afskrá kolefniseiningu þegar hún er notuð á móti losun. Einingin er þá færð á sérstakan afskráningarreikning og þannig komið í veg fyrir að hana sé hægt að nota aftur.

9. Meginreglan „ekki valda verulegum skaða“ (Do No Significant Harm: DNSH)

Kolefnisverkefni skulu lágmarka og – þar sem því verður við komið – forðast að hafa neikvæð áhrif á umhverfið, efnahag eða samfélag. Kolefnisverkefni skulu ekki hafa neikvæð áhrif á sjálfbæra þróun, líffjölbreytni eða samfélagsleg gildi. Við skipulagningu og framkvæmd þarf að taka tillit til áhrifa sem kolefnisverkefni geta haft á umhverfi og samfélag. Rétt er að koma á lágmarkskröfum um sjálfbærni fyrir kolefnisbindingu til að tryggja að aðgerðir til kolefnisbindingar hafi hlutlaus áhrif á eða skapi sameiginlegan ávinning í þá átt að milda og aðlagast loftslagsbreytingum og verndi eða efli líffjölbreytni og vistkerfi. Samkvæmt góðum starfsvenjum ætti að meta alla hugsanlega umhverfislega og félagslega áhættu og áhrif af hverju nýju kolefnisverkefni og gera ráðstafanir til að lágmarka og bæta upp hugsanlegan skaða. Í samræmi við bestu starfsvenjur skal óháður þriðji aðili sannprófa mat á áhrifum og vöktunarskýrslur. Framkvæmdaraðilar kolefnisverkefna skulu hafa samráð við sveitarfélög og hagsmunaaðila, bæði við skipulagningu og framkvæmd verkefna. Breið þátttaka er sérstaklega mikilvæg við skipulagningu og framkvæmd kolefnisverkefna sem geta haft veruleg félagsleg eða umhverfisleg áhrif. Samráð ætti að gera viðkomandi hagsmunaaðilum kleift að láta hagsmunamál sín og viðhorf í ljósi. Almenna reglan er þó sú að kolefnisverkefni skulu skipulögð þannig að komist sé hjá því að valda hvers kyns skaða, sem þýðir að kolefnisverkefni sem fela í sér verulegan skaða ættu ekki að eiga sér stað.

Heimild:

Laine, A., Ahonen, H.-M., Pakkala, A. et al. (2023). Supporting voluntary mitigation action with carbon credits. (1st ed.). Finnish Government.

ÍTAREFNI

Tafla 1. Samanburður við alþjóðleg viðmið um góðar starfsvenjur kolefnisverkefna

Heimild: Laine, A., Ahonen, H.-M., Pakkala, A. et al. (2023) Supporting voluntary action with carbon credits (1st ed.). Finnish Government.

 

Tafla 2. Skógarkolefni (SK) og alþjóðleg viðmið um góðar starfsvenjur kolefnisverkefna.

Heimild: Skógræktin (2023).