Stjórnskipulag

Á þessari síðu

 1. Skrifstofa Skógarkolefnis
 2. Stjórn
 3. Ráðgjafarnefnd
 4. Úrskurðarnefnd
 5. Þróun Skógarkolefnis

Skrifstofa Skógarkolefnis

Land og skógur hefur með höndum skrifstofuhald Skógarkolefnis.

Land og skógur er ríkisstofnun sem heyrir undir matvælaráðuneytið og þjónar m.a. skógrækt á Íslandi samkvæmt lögum um skógrækt.

Umsjón með skrifstofuhaldi Skógarkolefnis hefur Úlfur Óskarsson.

Stjórn

Stjórn Skógarkolefnis hefur með höndum framkvæmdastjórn Skógarkolefnis, þar með talda innleiðingu þess og kynningu en einnig alla frekari þróun, bæði hvað varðar stefnumörkun og tæknileg atriði. Stjórnin heldur fundi um það bil þrisvar á ári.

Meðal skilgreindra verkefna eru:

 • Árleg endurskoðun og uppfærsla kröfusettsins
 • Túlkun krafna og beiting, þar með talin úrlausn ágreiningsefna
 • Hönnun á ferli staðfestingar, úttekta og sannprófunar
 • Stuðningur við rekstur Loftslagsskrár Íslands
 • Stuðningur og forysta í því sem snertir staðfestingu/sannprófun
 • Viðurkenning aðila sem sinna staðfestingu/sannprófun
 • Að skapa Skógarkolefni stöðu og vinna að samskipta- og kynningarmálum kröfusettsins
 • Reglulegar skýrslur um umfang notkunar á kröfusettinu og úttekt þriðja hvert ár
 • Skipun undirnefnda eftir þörfum til að fast við sérstök viðfangsefni (s.s. samskipti/kynningu)

Stjórnarfólk

  • Ágúst Sigurðsson, Landi og skógi (forstöðumaður)
  • Gunnlaugur Guðjónsson, Landi og skógi (sviðstjóri gagna, miðlunar og nýsköpunar)
  • Brynjar Skúlason, Landi og skógi (sviðstjóri rannsókna og þróunar)
  • Úlfur Óskarsson, Landi og skógi (verkefnastjóri kolefnisverkefna)
  • Guðmundur Sigbergsson, ICR (ráðgjafi)
  • Hafliði H. Hafliðason, fulltrúi einkaaðila (ráðgjafi)

Ráðgjafarnefnd

Hlutverk ráðgjafarnefndar er að veita stjórn Skógarkolefnis ráðgjöf um hvaðeina sem varðar innleiðingu, kynningu, endurskoðun og áframhaldandi þróun kröfusettsins Skógarkolefnis. Gert er ráð fyrir að skipað verði í nefndina haustið 2023 og að hún haldi fundi árlega að jafnaði.

Yfirlit verkefna nefndarinnar:

  • Þróun og endurskoðun Skógarkolefnis og tilheyrandi verkfæra og leiðbeininga
  • Túlkun kröfusettsins og beiting þess
  • Ferli staðfestingar úttekta og sannprófunar
  • Samskipti og fræðsla sem snertir kröfusettið
  • Úttektir, rannsóknir og mat
  • Markaðsþróun

Úrskurðarnefnd

Úrskurðarnefndin fæst við öll þau deilumál sem kunna að koma upp og snerta túlkun Skógarkolefnis. Allar kvartanir sem snerta framgöngu starfsfólks Lands og skógar skal meðhöndla í samræmi við verkferla Skógarkolefnis um klögumál.

Í nefndinni sitja:

 • Guðmundur Sigbergsson, (ráðgjafarnefnd Skógarkolefnis)
 • Ragnhildur Freysteinsdóttir, (ráðgjafarnefnd Skógarkolefnis)
 • Gunnlaugur Guðjónsson, (Landi og skógi, stjórn Skógarkolefnis, formaður)
 • Brynjar Skúlason, (Landi og skógi, stjórn Skógarkolefnis)

Ef upp koma hagsmunaárekstrar hjá fulltrúum í úrskurðarnefndinni hvað varðar einstök mál skal stjórn Skógarkolefnis skipa staðgengla. Meirihluti ræður ef ágreiningur kemur upp í nefndinni. Atkvæði formanns ræður úrslitum ef atkvæði standa á jöfnu.

Úrskurðarnefndin fundar eftir þörfum og er stjórn Skógarkolefnis til ráðgjafar. Hver sem hefur mál sem þykja eiga erindi við nefndina skal fylla út sérstakt eyðublað um ágreiningsmál og senda í tölvupósti á netfangið skogarkolefni@skogur.is.

Ferillinn sem fylgja skal í slíkum málum er eftirfarandi:

  • Úrskurðarnefndin skal bjóða „kröfuhafa“ að leggja fram mál sitt
  • Skrifstofa Skógarkolefnis og/eða aðili sannprófunar/staðfestingar skal einnig gefa upplýsingar um málið
  • Úrskurðarnefndin skal vega og meta allar upplýsingar og gefa út drög að svari sem kröfuhafa er afhent til athugasemda
  • Kröfuhafa skal veittur þriggja vikna frestur til athugasemda
  • Allar viðbótarupplýsingar sem kunna að berast skulu berast skrifstofu Skógarkolefnis til að tryggja sameiginlegan skilning á úrlausnarefnunum
  • Úrskurðarnefndin vegur og metur allar viðbótarupplýsingar og svarar að því búnu erindinu formlega
  • Ákvörðun úrskurðarnefndar er endanleg

Þróun Skógarkolefnis

Samantekt um helstu vörður þróunar hingað til

2018: Valkvæðir markaðir með kolefniseiningar fyrst ræddir innan Skógræktarinnar. Kröfusett og staðlar til vottunar skoðaðir og ákveðið að þýða kröfusettið UK Woodland Carbon Code.

2019: Fyrstu hugmyndirnar kynntar á hinni árlegu Fagráðstefnu skógræktar. Vinna við að aðlaga UK WCC að íslensku lagaumhverfi. Fyrsta útgáfa Skógarkolefnis verður til.

2020: Þróun Skógarkolefnisreiknis og kolefnisskrár hefst. Áframhaldandi kynning á Skógarkolefni til áhugasamra aðila. Fyrstu samningar gerðir um kolefnisverkefni gerðir a milli Skógræktarinnar og einkaaðila. Yggdrasil (YGG Carbon) stofnað.

2021: Lokið við Skógarkolefni og birt á vef Skógræktarinnar. Samningum um kolefnisverkefni fjölgar. Ráðgjafarhlutverk Skógræktarinnar skýrist. Gróðursetning hefst í fyrstu skógarkolefnisverkefnunum. Þróun verkefnishugmynda (PIN) og verkefnishönnunar (PDD) hefst, auk breytinga á ræktunaráætlunum.

2022: Loftslagsskrá Íslands (ICR) hefur skráningu verkefna. Verkefnisstjóri kolefnisverkefna ráðinn til Skógræktarinnar. Gróðursetning hefst í fleiri skógarkolefnisverkefnum á vegum Skógræktarinnar Ygg og annarra aðila. Staðfesting (fyrsta skref vottunar) fer fram á fyrstu verkefnum og fyrstu skógarkolefniseiningar eru skráðar í ICR. Þróun á Skógarkolefni 2.0 hefst.

2023: Útgáfa 2.0 af Skógarkolefni kemur út 3. maí og nýr vefur opnaður.

2024: Ný stofnun, Land og skógur, tekur við öllum skuldbindingum Skógræktarinnar.