Sjálfsmat

Sjálfsmat er valkostur verkefniseiganda til að sýna fram á að verkefni sé á réttri leið, uppfylli öll skilyrði Skógarkolefnis og sé í samræmi við viðmið og vísa um sjálfbæra skógrækt. Í þeim tilfellum sem notast er við sjálfsmat fer engin athugun þriðja aðila fram á viðkomandi verkefni. Sjálfsmatið staðfestir ekki kolefnisbindingu verkefnisins og þar sem engin athugun þriðja aðila fer fram verður engum kolefniseiningum í bið breytt í fullgildar kolefniseiningar. Sannprófun þarf til að breyta kolefniseiningum í bið í fullgildar kolefniseiningar.

Hvenær er hægt að velja sjálfsmat?

Nauðsynlegt er að úttekt á verkefni fari fram 5 árum eftir upphafsdag verkefnisins og síðan á að minnsta kosti á 10 ára fresti. Einungis er hægt að notast við sjálfsmat í stað sannprófunar frá og með 15. ári ef:

  • Síðasta sannprófun verkefnisins fékk græna einkunn. Ef um hóp verkefna er að ræða þurfa öll verkefnin að vera með græna einkunn
  • Enginn vafi er á um að væntingar um vöxt og þrif ungskógarins standist
  • Síðasta úttekt var sannprófun en ekki sjálfsmat
  • Viðkomandi úttekt er ekki lokaúttekt verkefnisins. Við lokaúttekt er nauðsynlegt að fá sannprófun hjá óháðum þriðja aðila
  • Engar meiri háttar breytingar hafa orðið á verkefninu (svæði, stjórnun, eignarhaldi, þrifum trjágróðurs o.fl.)

Vinsamlegast hafðu samband við skrifstofu Skógarkolefnis ef þú ætlar að beita sjálfsmati. Af hálfu Skógarkolefnis verður þá kannað hvort verkefnið uppfyllir skilyrðin.

Hvernig er sjálfsmat framkvæmt?

  1. Kannið fyrst hjá skrifstofu Skógarkolefnis hvort verkefnið sé gjaldgengt til sjálfsmats
  2. Fylla þarf út eftirfarandi skjöl (sjá Skjalasniðmát og eyðublöð):
    • Framvinduskýrslu verkefnis (PPR)
    • Grunnskýrslu um úttekt (BMR), sjá grunnkröfur um vöktun
  3. Hlaða þarf upp skjölum verkefnisins inn í Loftslagsskrá og merkja sem sjálfsmat.
  4. Skrifstofa Skógarkolefnis yfirfer verkefnið eða verkefnahópinn. Við yfirferð á verkefni sem valið hefur að beita sjálfsmati getur skrifstofa Skógarkolefnis óskað eftir viðbótarupplýsingum, séu fyrirliggjandi gögn ekki nægilega skýr.
    • Ef skrifstofa Skógarkolefnis er sátt við veittar upplýsingar samþykkir hún verkefnið sem 'sjálfsmetið'.
    • Ef skrifstofa Skógarkolefnis hefur áhyggjur af framvindu verkefnis sem merkt hefur verið 'sjálfsmetið' í Loftslagsskrá er hægt að krefjast þess að full úttekt og sannprófun óháðs þriðja aðila fari fram.