2.5 Vöktun

Kröfur

Verkefni skal taka út á 5. ári frá stofndegi þess og síðan að minnsta kosti á 10 ára fresti frá stofndegi verkefnis eða verkefnahóps. Hefja skal upplýsingasöfnun og matsvinnu á vettvangi 6-12 mánuðum fyrir hverja sannprófun, en ekki meira en 12 mánuðum, svo henni ljúki á réttum tíma. Verði töf á þessu af óviðráðanlegum ástæðum, þarf að sækja um undanþágu til stjórnar Skógarkolefnis. Sé undanþága veitt skal skrá hana og seinkunina sem af hlýst í Loftslagsskrá.

Vöktunaráætlun

Gera þarf áætlun um vöktun fyrir sérhvert verkefni og skal hún vera tilbúin fyrir upphaflega staðfestingu verkefnisins. Tilgangurinn með vöktun er að skrá og mæla kolefnisbindingu og tryggja að verkefninu sé stýrt af fagmennsku. Vöktunaráætluninni skal lýst í verkefnislýsingu.

Vöktun

Á 5. ári eftir stofndag skulu öll verkefni gangast undir staðlaða 5 ára úttekt. Tilgangurinn er að sannprófa að nýskógræktin hafi möguleika til að dafna og binda kolefni, eins og spáin gerði ráð fyrir:

 • Sannprófa að tilskilinn plöntuþéttleiki hafi náðst í gróðursetningunni
 • Skrá raunverulega tegundasamsetningu trjáplantna
 • Kanna heilbrigði plantna og skemmdir, vöxt samkeppnisgróðurs og friðun landsins fyrir beit.

Úttektin er samkvæmt fyrir fram ákveðinni forskrift. Skila skal til vottunarstofu framvinduskýrslu um verkefnið sem byggð er á úttektinni. Við sannprófun verður kolefniseiningum í bið samkvæmt spá fyrir viðkomandi árabil (árin frá síðustu sannprófun) breytt í fullgildar Skógarkolefniseiningar í Loftslagsskrá.

Frá og með 15. ári eftir stofndag skulu verkefni metin samkvæmt reglum og aðferðum um mat á kolefnisbindingu. Skila skal framvinduskýrslu um stök verkefni og verkefnahópa sem byggð er á þessu mati.

Gera þarf viðeigandi ráðstafanir ef lifun eða vöxtur skógarins og þar með kolefnisbinding er ekki eins og búist var við.

Gögn vegna staðfestingar

 • Framvinduskýrsla ásamt niðurstöðu mælinga á kolefnisbindingu
 • Viljayfirlýsing frá landeiganda eða verkefnastjóra um að verkefnið verði vaktað og gögnum skilað til staðfestingar þess og viðhalds á vottun allt samningstímabilið

Frekari gögn vegna sannprófunar á síðari stigum

 • Framvinduskýrsla sem staðfestir kolefnisbindingu
 • Önnur gögn sem tiltekin eru í reglum um mat á kolefnisbindingu
 • Önnur gögn sem staðfesta aðgerðir vegna frávika hvers konar

Leiðbeiningar

 • Vöktun er nauðsyn til að sýna fram á að gróðursetning hafi lánast og til að meta raunverulegan vaxtarhraða trjánna og kolefnisbindingu. Úttekt skal fara fram samkvæmt dagsetningum sem koma fram í reglum þessum

ÍTAREFNI

Vöktun

 1. Kröfur
 2. Vöktunaráætlun
 3. Hvenær skal hefja úttektir
 4. Vöktun á 5. ári
 5. Vöktun frá og með 15. ári
 6. Kröfur um grunnúttekt
 7. Hver getur annast matið?
 8. Vísindin sem mat á kolefnisbindingu er byggt á
 9. Framtíðarþróun

1 Kröfur

 • Verkefni og verkefnahópa skal taka út á fimmta ári frá stofndegi vegna sannprófunar og síðan að minnsta kosti á tíu ára fresti eftir það. Beita skal þeim aðferðum við úttektir sem hér eru tilgreindar. Sjálfsmat skal einungis nota í stöku tilvikum.
 • Hefja skal upplýsingasöfnun og matsvinnu á vettvangi 6-12 mánuðum fyrir hverja sannprófun, en ekki meira en 12 mánuðum, svo henni ljúki á réttum tíma. Verði töf á þessu af óviðráðanlegum ástæðum, þarf að sækja um undanþágu til stjórnar Skógarkolefnis. Sé undanþága veitt skal skrá hana og seinkunina sem af hlýst í Loftslagsskrá.
 • Grípa skal til úrbóta ef lifun og/eða vöxtur og kolefnisbinding trjáa stenst ekki væntingar.

Vöktunaráætlun skal skoða við sannprófun. Einnig skal yfirfara framvinduskýrslu verkefnisins og nýjustu vöktunarskýrslu við hverja sannprófun.

2 Vöktunaráætlun

Sérhvert verkefni þarf að gera áætlun um vöktun og skal hún vera tilbúin fyrir staðfestingu verkefnisins. Tilgangurinn með vöktun er að skrá og mæla kolefnisbindingu og tryggja að verkefninu sé stýrt af fagmennsku. Vöktunaráætluninni skal lýst í verkefnislýsingu.

3 Hvenær skal hefja úttektir?

Verkefni skulu hefja úttektir 6-12 mánuðum (en ekki meira en 12 mánuðum nema í undantekningartilvikum) fyrir hverja sannprófun, til að …

 • sýna fram á að vel hafi tekist til með að koma plöntunum á legg á 5. ári
 • meta raunverulegan vöxt trjáa og kolefnisbindingu frá og með 15. ári

Tilgangur þess að hefja upplýsingasöfnun og matsvinnu á vettvangi 6-12 mánuðum fyrir hverja sannprófun, er að hafa nægan tíma til að ljúka vinnunni áður en hún verður metin.

4 Vöktun á 5. ári

Á fimmta ári eftir stofndag skulu öll verkefni gangast undir fyrstu sannprófun. Tilgangurinn er að ganga úr skugga um hvort nýskógræktin hafi möguleika á að dafna og binda kolefni, eins og lagt var upp með í verkefnislýsingu:

 • Athuga hvort tilskilinn plöntuþéttleiki hafi náðst
 • Skrá raunverulega tegundasamsetningu trjáplantna
 • Kanna heilbrigði plantna og skemmdir, vöxt samkeppnisgróðurs og friðun landsins fyrir beit

Úttektin er samkvæmt fyrir fram ákveðinni forskrift (úttektarskjal Skógarkolefnis fyrir 5. ár). Skila skal til vottunarstofu framvinduskýrslu um verkefnið sem byggð er á úttektinni. Við sannprófun verður kolefniseiningum í bið breytt í fullgildar einingar samkvæmt því sem lokakolefnisspáin gerði ráð fyrir.

Sannprófun verkefna á 5. ári frá stofndegi er með takmörkuðum áreiðanleika.

5 Vöktun frá og með 15. ári

Næsta sannprófun fer fram 15 árum eftir stofndag verkefnisins og síðan að minnsta kosti á 10 ára fresti fram að lokadegi verkefnisins. Tvenns konar leiðir eru í boði:

Ítarleg úttekt og staðfesting þriðja aðila

Tilgangur vöktunarinnar frá og með 15. ári er að meta kolefnisbirgðir svæðisins og ganga úr skugga um að vöxtur og viðgangur skógarins sé með eðlilegum hætti og kolefnisbindingin stefni í að verða eins og spáð var. Í þessu skyni er skógurinn mældur í ákveðnum úttektarreitum samkvæmt úttektaráætlun Skógarkolefnis. Þar er lagt mat á:

 • Kolefnisbirgðir
 • Heilbrigði trjáa

Í vöktunarskýrslu Skógarkolefnis fyrir ár 15+ er að finna sniðmát fyrir gagnasöfnun ásamt samantektarsíðum til að reikna út kolefnisbirgðir skógarins. Framvinduskýrsla verkefnisins og vöktunarskýrsla Skógarkolefnis fyrir ár 15+ ásamt ljósmyndum er send til vottunarstofunnar sem annast sannprófunina. Að lokinni sannprófun breytast viðeigandi kolefniseiningar í bið í fullgildar einingar.

 • Ef niðurstöður úttektarinnar sýna að skógurinn geymi meira kolefni en spáð var, verður sannprófunareinkunnin „græn“ og til verða fleiri fullgildar kolefniseiningar í samræmi við niðurstöður matsins
 • Ef niðurstöður úttektarinnar sýna að skógurinn geymi minna kolefni en spáð var verður sannprófunareinkunnin „rauð“ og ráðstöfun óafhentra kolefniseininga í bið frestað
 • Ef vottunarstofan dregur í efa getu verkefnis til að binda áætlað magn kolefnis á komandi árum, verður að endurmeta kolefnisspána og fella niður umframkolefniseiningar í bið fyrir komandi ár

Sannprófun verkefna sem eru tekin ítarlega út skilar mati með fullnægjandi vissu.

Grunnúttekt og sjálfsmat

Verkefni geta aflað einfaldra gagna um skóginn til að sýna fram á að kolefnisbinding og þrif skógarins séu með eðlilegum hætti (sjá kröfur um grunnúttekt). Þessi gögn eru sett fram í grunnúttektarskýrslu.

Sjálfsmat felur í sér að grunnúttektarskýrsla og framvinduskýrsla verkefnisins eru birtar í Loftslagsskrá án sannprófunar þriðja aðila. Skrifstofa Skógarkolefnis þarf hins vegar að skoða gögnin áður en þau eru birt, og síðan mun verkefnið fá stöðuna „sjálfsmat“. Ef verkefnið er í sjálfsmati verða kolefniseiningarnar áfram í bið og breytast ekki í fullgildar einingar. Kaupendur geta þar með ekki notað þær til að jafna losun sína.

Einungis er hægt að framkvæma grunnúttekt og sjálfsmat frá og með 15. ári ef:

 • Síðasta sannprófun skilaði „grænni“ einkunn (ef um hóp er að ræða þurfa öll verkefnin innan hans að hafa fengið „græna“ einkunn) og horfur varðandi vöxt og þrif skógarins eru góðar
 • Sjálfsmatið kemur í kjölfar sannprófunar
 • Þetta er ekki síðasta eftirlitstímabil verkefnisins. Í lok verkefnistímans verður að gera ítarlega úttekt og sannprófun af hálfu þriðja aðila
 • Engar meiri háttar breytingar hafa orðið á verkefninu (landsvæði, stjórnun, eignarhaldi, þrifum skógarins o.fl.)

Verkefni sem óska sjálfsmats þurfa að hafa samband við skrifstofu Skógarkolefnis sem metur hvort verkefnið uppfylli skilyrðin.

Skrifstofa Skógarkolefnis getur óskað viðbótarupplýsinga ef nauðsyn krefur til að ákveða hvort gögn um verkefnið styðji jákvæða niðurstöðu um sjálfsmat. Ef gögn eru verkefninu hagstæð samþykkir skrifstofa Skógarkolefnis erindið. En ef skrifstofa Skógarkolefnis hefur efasemdir um viðgang skógarins getur hún hafnað ósk um sjálfsmat og krafist þess að farið sé í ítarlega úttekt og sannprófun þriðja aðila.

Sjálfsmatsverkefni eru ekki sannprófuð. Engum kolefniseiningum í bið verður breytt í fullgildar einingar.

6 Kröfur um grunnúttekt

 1. Ljúka skal framvinduskýrslu svo hægt sé að meta hvort verkefnið uppfylli kröfusett Skógarkolefnis og sé enn á réttri leið
 2. Verkefnisstjóri útbýr grunnúttektarskýrslu með myndefni af svæðinu sem hér segir til að staðfesta þrif og vöxt og umfang nýskógræktarinnar. Verkefnisstjóri ætti að bera tillögur að loftmyndum undir skrifstofu Skógarkolefnis (til sjálfsmats) eða vottunarstofu (til sannprófunar):
  • Ljósmyndir sem eru lýsandi fyrir verkefnið og eru með staðsetningartilvísun (lágmark 3-4 myndir, og fleiri ef verkefnið samanstendur af nokkrum aðskildum svæðum)
  • Ein loftmynd, með merkingum sem sýna útlínur verkefnisins og gróðursett svæði, til að staðfesta gróðursetningarþekjuna. Þetta gætu verið:
   1. Nýjar, nákvæmar loftmyndir úr flugvél eða gervitungli
   2. Ljósmyndir eða myndbönd sem aflað er með drónatækni
   3. Aðrar myndheimildir ef þær uppfylla kröfur
 3. Nýtt kort (sem sýnir gróðursett svæði/úrtök/núverandi útlínur reita og verkefnis) ef misræmi var á milli gróðursetta svæðisins sem sést á loftmynd og upphaflega kortsins. Fylgja skal leiðbeiningum Skógarkolefnis um kortlagningu. Ef misræmi á sýnilegu skógarsvæði og kortum er meira en 5% þarf að ráðast í ítarlega úttekt

7 Hver getur annast matið?

Ef nægileg reynsla er fyrir hendi geta landeigendur, framkvæmdaraðilar eða óháðir þriðju aðilar annast úttektirnar á 5. eða 15. ári. Vottunarstofan getur einnig boðist til að annast vettvangsúttekt fyrir hönd framkvæmdaraðila verkefnisins. Vottunarstofan mun ávallt heimsækja nýskógræktarsvæðið vegna sannprófunar á 5. ári en við seinni sannprófanir mun ákvörðun um hvort heimsóknar vottunarstofu sé þörf byggjast á áhættumati um framvindu verkefnisins. Ef óháður þriðji aðili er fenginn til að annast úttektina, er ólíklegra að vottunarstofa þurfi að senda fulltrúa á vettvang, en framkvæmdaraðilar verkefna ættu þó að hafa samband við vottunarstofuna til að kanna hæfi óháðs úttektarmanns áður en úttektir hefjast.

8 Vísindin sem mat á kolefni er byggt á

Aðferðafræðin við mat á kolefni í trjám á tilteknu skógræktarsvæði er byggð á vinnu loftslagsdeildar Skógræktarinnar við úttektir á íslenskum skógum, Íslenskri skógarúttekt. Sú forskrift að kolefnismælingunum sem Skógarkolefni mælir með verður birt í sérstöku riti um úttekt á kolefnisinnihaldi í lífmassa trjáa.

9 Framtíðarþróun

 • Aðferðalýsing við mat á kolefni í jarðvegi verður þróuð áfram
 • Við munum halda áfram að rannsaka aðrar aðferðir við kolefnismat með mælitækjum á gervihnöttum, flugvélum, drónum eða jarðbundinni leysigeislaskönnun. Við munum bæta við forskriftina um aðferðafræðina sem Skógarkolefni mælir með þegar slíkar aðferðir eru orðnar áreiðanlegar og hagkvæmar