Selja kolefniseiningar

Hvernig fer sala kolefniseininga fram?

Hvenær er hægt að selja kolefniseiningarnar?

Aðeins er hægt að nota fullgildar kolefniseiningar til að vega upp á móti losun við kolefnisjöfnun. Kolefniseiningar í bið er hins vegar hægt að nota til að hjálpa fyrirtækjum að áætla hvernig ná megi kolefnishlutleysi fyrir einhvern tiltekinn tíma í framtíðinni. Sjá um staðhæfingar sem fyrirtæki geta haldið fram á síðunni Einingar í bið og fullgildar einingar.

  • Að selja kolefniseiningar í bið (fyrir fram): Þegar verkefni hefur verið staðfest og kolefniseiningar í bið skráðar í Loftslagsskrá er komin „vara“ sem hægt er að selja. Staðfesting fer fram fljótlega eftir að gróðursetningu í verkefninu er lokið. Kolefniseiningarnar eru merktar tilteknum „árgangi“/tímastimpli sem segir til um hvenær megi fullgilda þær. Kaupandi getur einungis notað þær til að gera áætlanir um kolefnishlutleysi í framtíðinni. Hafa þarf í huga að kolefniseining í bið er fullvissa um kolefnisbindingu. Áhætta er þó í öllum verkefnum og við sannprófun er mögulegt að einhverjar kolefniseiningar verið skráðar sem 'ekki til afhendingar'.
  • Að selja fullgildar, sannprófaðar kolefniseiningar: Þegar tiltekinn árgangur kolefniseininga hefur verið  sannprófaður (á 5. ári og svo á 10 ára fresti) er kolefniseiningum í bið breytt í fullgildar kolefniseiningar, Skógarkolefniseiningar. Fullgildar einingar getur fyrirtæki notað til að vega upp á móti losun sinni eða lýsa yfir kolefnishlutleysi. Fullgildar kolefniseiningar eru öruggar einingar og tryggðar með  tryggingareiningum ef þær eru seldar.

Sum verkefni kunna að vilja selja fljótlega einum kaupanda allar þær kolefniseiningar sem eru til ráðstöfunar. Verkefni mega selja 50% kolefniseininga í bið. Önnur verkefni gætu valið að selja minna magn af tilteknum „árgangi“ til mismunandi kaupenda. Enn önnur gætu kosið að bíða, en selja staðfestar fullgildar kolefniseiningar eftir því sem þær verða til með sannprófun.

Hverjir kaupa kolefniseiningar?

Ýmsar leiðir eru færar til að finna kaupendur að kolefniseiningum:

  • Kanna má áhugann hjá fyrirtækjum í heimabyggð eða hjá viðskiptavinum
  • Þegar verkefni hefur verið staðfest er það birt á vef Loftslagsskrár sem verkefni með kolefniseiningar til sölu. Verkefni getur sent inn bæði texta og myndir til kynningar.
  • Verkefni getur merkt kolefniseiningar sínar 'til sölu' á markaðstorgi (Request for Information Platform) í Loftslagsskrá (Athugið að þessi möguleiki er ekki tilbúinn á vef skrárinnar).
  • Kannið málið hjá miðlurum kolefniseininga. Miðlarar hafa tengsl við fyrirtæki sem vilja kaupa kolefniseiningar í bið, til að hjálpa við áætlanagerð, eða fullgildar kolefniseiningar til að vega upp á móti losun.

Á Íslandi er einnig hægt að selja opinberum aðilum kolefniseiningar, því að stjórnvöld hafa ákveðið að kolefnisjafna Stjórnarráðið og stofnanir þess með vottuðum kolefniseiningum.

Hvað er greitt fyrir kolefniseiningar?

Semja þarf við kaupanda um verð og greiðslu fyrir kolefniseiningar verkefnisins. Verðið getur verið breytilegt eftir kostnaði við verkefnið og þeim viðbótarávinningi sem viðkomandi verkefni veitir. Algengt verð á markaði erlendis er á bilinu 40-50 USD á tCO2-ígildi fyrir kaup á kolefniseiningum í bið. Þar sem ekki eru enn til fullgildar kolefniseiningar á Íslandi er ekki hægt að segja til um hvort verðið á þeim verður með öðru móti.

Kolefniseiningar á valkvæðum markaði eru virðisaukaskattsskyldar og því þarf að greiða af þeim virðisaukaskatt.

Að millifæra einingar til kaupanda eða afskrá þær

Mikið magn? – Kaupandi er með eigin reikning

Kaupendur mikils magns geta opnað reikning í Loftslagsskrá til að sýsla með kolefniseiningar sínar, hvort sem það eru Skógarkolefniseiningar eða einingar úr öðrum kröfusettum. Kaupandi með reikning í Loftslagsskrá hefur meiri sveigjanleika til að annast eigin einingar og nota/afskrá þær þegar honum hentar, en gjald er tekið fyrir að opna reikning. Kolefniseiningar hans verða einnig sýnilegar á síðunni Holdings í Loftslagsskrá. Ef kaupendur eru með reikninga getur seljandi millifært einingar á reikning þeirra á svipaðan hátt og reiðufé er millifært í gegnum netbanka.

Lítið magn? Úthlutaðu einingum eða afskráðu þær fyrir hönd kaupanda

Ef kaupandi eininga er ekki með reikning í Loftslagsskrá og ætlar ekki að stofna slíkan, getur seljandi séð um að úthluta honum einingum í bið eða afskrá þær við fullgildingu. Einingarnar eru þá merktar með nafni kaupanda og athugasemdum um fyrirætlunina. Án reiknings er erfiðara fyrir kaupanda að hafa reiður á einingum sínum, jafnvel þótt hann geti leitað og fundið einingar merktar sér. Á móti kemur að með þessu sleppur kaupandinn við umsýslu með reikningi í Loftslagsskrá. Einingarnar eru á endanum teknar út af reikningi seljandans.

úthluta einingum í bið: Kaupandi getur fundið einingar sínar á síðunni Úthlutuð inneign í Loftslagsskrá merktar nafni sínu og þessar einingar verða sjálfkrafa afskráðar við sannprófun, að því gefnu að bindingin hafi átt sér stað.

afskrá fullgildar Skógarkolefniseiningar: Kaupandi getur séð einingar á sínu nafni á síðunni Afskráð inneign í Loftslagsskrá. Hann getur vísað til þeirrar síðu með hlekk þegar hann lýsir yfir notkun eininganna í grænu bókhaldi.