1.2 Gjaldgeng verkefni – landgerðir og landnotkun

Kröfur

  • Nýskógrækt er eina aðferðafræðin sem rúmast innan Skógarkolefnis. Afla skal gagna um að svæðið hafi ekki verið skógi vaxið í minnst 25 ár áður en verkefni hefst
  • Ekki skal gróðursetja í áður óraskað votlendi eða annað land sem nýtur lagalegrar verndar, eða þar sem skógur er fyrir

Gögn um landnotkun, athuganir og kortlagningu gróðurlenda í ræktunaráætlun eru yfirfarin við staðfestingu verkefnis

Gögn vegna staðfestingar

Leiðbeiningar

  • Nýskógrækt er skilgreind þar sem land, sem ekki hefur verið skógi vaxið í a.m.k. 25 ár, er tekið til skógræktar
  • Mismunandi aðferðir koma til greina: Gróðursetning, sáning trjáfræja eða sjálfsáning frá nærliggjandi skógarreitum

ÍTAREFNI

Gjaldgeng verkefni – landgerðir og landnotkun

Kröfur

  • Nýskógrækt er eina aðferðafræðin sem rúmast innan Skógarkolefnis. Afla skal gagna um að svæðið hafi ekki verið skógi vaxið í minnst 25 ár áður en verkefni hefst
  • Ekki skal gróðursetja í óraskað votlendi eða annað land sem nýtur lagalegrar verndar, né þar sem skógur er fyrir

Gögn um landnotkun, athuganir og kortlagningu gróðurlenda í ræktunaráætlun eru yfirfarin við staðfestingu verkefnis.

Nýskógrækt

Í Skógarkolefni er nýskógrækt skilgreind sem umbreyting á landnotkun af mannavöldum í skóg á landi sem ekki hefur verið undir skógarþekju í a.m.k. 25 ár. Stofnað er til skógarins með gróðursetningu, beinni sáningu eða náttúrulegri endurnýjun.

Verkefni þurfa að sanna að landið hafi ekki verið skógi vaxið síðustu 25 árin. Eftirfarandi heimildir eru hentugar:

  • Skrár yfir landnotkun
  • Söguleg kort eða myndir
  • Gagnagrunnar Skógræktarinnar um gróðursetningu/fellingu
  • Undirrituð staðfesting frá óháðum sérfræðingi

Friðlýst svæði og land með hátt verndargildi (t.d. óraskað votlendi og birkiskógar) skal undanþegið nýskógrækt. Framkvæmdir skulu ekki raska fornleifum. Fyrirhuguð nýskógrækt sem þekur stærra svæði en 200 ha eða nær til svæða á náttúruminjaskrá er tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar.

Jarðvegur

Allur jarðvegur er gjaldgengur í Skógarkolefnisverkefni, að teknu tilliti til takmarkana varðandi landgerðir. Almennt má búast við því að tiltölulega mest kolefni bindist í þeim jarðvegi sem minnst hefur af því fyrir.

Jarðvegur í lítt grónu þurrlendi, land með gróðurþekju undir 20%-30%, geymir að jafnaði minnst kolefni allra landgerða, minna en 1,5% C. Þótt landið sé oftast mjög rýrt geta sumar trjátegundir vaxið þar nokkuð vel. Í nýskógrækt á slíku landi er gert ráð fyrir sömu árlegu kolefnisbindingu í jarðvegi og áætluð er við landgræðslu, 1,881 tonni CO2 á ha.

Gera má ráð fyrir að jarðvegur í hálf- til fullgrónu þurrlendi, landi með gróðurþekju yfir 20%-30%, innihaldi á bilinu 1%-12% C. Þetta er afar misjafnt land hvað frjósemi varðar og þess vegna er vöxtur trjáa í afar misjafn eftir jarðvegsgæðum. Gera má ráð fyrir því að árleg kolefnisbinding í jarðvegi verði 1,340 tonn CO2 á ha, sem er byggt á innlendum rannsóknarniðurstöðum.

Mýrarjarðvegur sem hefur verið framræstur í a.m.k. 25 ár og var ekki ræstur fram vegna skógræktar, er gjaldgengur í Skógarkolefni. Þar má yfirleitt búast við miklum trjávexti, en hætt er við áframhaldandi losun frá lítt rotnuðum gróðurleifum í jarðveginum og óbeinni losun vegna útskolunar úr jarðveginum. Miðað við alþjóðlega stuðla fyrir skóg og kjarrlendi á framræstu votlendi er stuðullinn fyrir beina árlega losun 1,357 tonn CO2 á ha en fyrir óbeina árlega losun 0,440 tonn CO2 á ha, samtals 1,797 tonn CO2 á ha á ári. Framræst votlendi losar líka metan (CH4) og hláturgas (N2O) og er sú losun metin 0,39 tonn CO2-ígilda á ha á ári. Samtals er því árleg losun frá jarðvegi í framræstu votlendi metin 2,187 tonn CO2-ígilda á ha. Vegna mikils samkeppnisgróðurs í upphafi er líklegt að fara þurfi í miklar jarðvinnsluaðgerðir og það getur valdið meiri losun en gerist í þurrlendisjarðvegi.

Kolefnisbindingarspár fyrir jarðveg í Skógarkolefnisreikni eru varfærnar vegna þess að þekkingin á þætti jarðvegsins er ófullkomin. Rannsóknir munu leiða betur í ljós breytileika og sveiflur í kolefnisjöfnuði jarðvegs eftir jarðvegsgerðum, undirbúningi lands, trjátegundum og aldri skógarins. Því munu bindingarspár fara batnandi og auðveldara verður að fylgjast með breytingum á kolefnisforða jarðvegs.

Val trjátegunda

Val trjátegunda er háð ýmsum þáttum svo sem landgerðum, landshlutum og hæð yfir sjó. Þekking á vexti og þrifum trjátegunda er byggð á gögnum úr þúsundum skógarúttekta um allt land sem saman lýsa trjávexti við mismunandi vaxtarskilyrði. Í Skógarkolefnisreikni er hægt að velja um þær trjátegundir sem talið er að geti þrifist og vaxið eðlilega á tilteknum svæðum. Hægt er að velja á milli þriggja landgerða og fimm helstu trjátegundunna í skógrækt á Íslandi auk nokkra gróskuflokka fyrir hverja trjátegund.

Við gerð skógræktaráætlana þarf að taka tillit til fleiri þátta en gert er í Skógarkolefnisreikni og meta í hverju tilviki hvaða trjátegundir geti þrifist og vaxið, m.a. eftir markmiðum nýskógræktarinnar. Ef notuð er trjátegund sem er utan reiknigetu Skógarkolefnisreiknis eða tegund er notuð utan þeirra landfræðilegu marka sem reiknirinn setur, þarf að leggja faglegt mat á hvort það sé skynsamlegt og hvaða kolefnisbindingu eigi að miða við. Mikilvægt er að það mat sé varfærið og skógfræðingur annist það.

Mikilvægt er að trjáplöntur sem eru valdar í Skógarkolefnisverkefni séu af þekktum og viðurkenndum uppruna, séu heilbrigðar og ósýktar.

Framtíðarþróun

Þróuð verður aðferðarlýsing fyrir jarðvegsmat á jarðvegsgerð og kolefnisinnihaldi jarðvegs.